Jól

Jólastjörnukrans úr ódýrum efnivið

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Það er notalegt að föndra saman á aðventunni og allir hjálpast að.
Það er notalegt að föndra saman á aðventunni og allir hjálpast að.
Pappahólkarnir innan úr eldhús- eða salernisrúllunum eru efniviður sem flest heimili eiga nóg af og alltaf safnast upp jafnt og þétt. Þá er því kjörið að nýta í jólaföndur með fjölskyldunni þar sem nánast engu þarf til að kosta.

Pappahólkar innan úr salernisrúllum eru efniviður sem nóg er til af.
Það sem þarf er:

Hellingur af pappahólkum innan úr salernisrúllum

Skæri

Þekjulitir eða sprey í jólalegum lit

Glimmer ef vill

Heftari eða límbyssa

Einföld jólastjarna í borða fer vel hangandi á jólatré eða í glugga.Mynd/Eyþór
Leggið plastdúk á borðið eða þekið það með dagblöðum svo ekki fari lím eða málning á borðplötuna.

Byrjið á að lita pappahólkana í skemmtilegum lit og jafnvel festa á þá glimmer. Til dæmis mætti mála hólkana í fleiri en einum lit svo úr verði marglit jólastjarna. Einnig má notast við litasprey og spreyja stjörnuna eftir að búið er að festa allt saman, í einum lit.

Pressið pappahólkinn saman og klippið niður í hæfilega breidd. Til dæmis má klippa hólkinn fyrst í tvennt og svo hvorn helming fyrir sig í tvennt svo fjögur jafn breið „lauf“ náist úr einum hólki.

Festið nú laufin saman með heftara eða límbyssu. Athugð að festa þau ekki þar sem þau eru breiðust heldur nær endanum á laufinu svo þau raðist í hring. Ef nota á límbyssu er gott að hafa fullorðinn með þar sem límið er mjög heitt.

Fjöldi laufanna fer eftir því hversu belgvíð við viljum hafa þau. Það gæti verið fallegt að hafa þau mjó og mörg saman eins og snjókorn. Í þessu tilfelli voru sex lauf fest saman svo þau mynda jólastjörnu.

Raða má mörgum stjörnum saman og búa þannig til jólalegan krans í glugga.
Þegar stjarnan er komin saman er hún ljómandi falleg hangandi ein og sér í borða, til dæmis á jólatrénu eða í glugga. En það er líka hægt að festa fleiri stjörnur saman í krans.

Auðveldast er þá að raða stjörnunum saman á borðinu í það form sem ykkur líkar. Því fleiri stjörnur sem raðað er saman, því stærri og þéttari getur kransinn orðið. Þó gæti þurft að búa til einhverskonar styrkingu ef raða á mörgum stjörnum saman.

Til dæmis mætti klippa hring út úr pappa og líma stjörnurnar á hann.

Í þessu tilfelli voru fimm stjörnur festar saman í krans og þurfti enga styrkingu. 






×