Innlent

Dómur þyngdur vegna pókerstaðar í Skeifunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Þríeykið var sakfellt fyrir að reka spilavíti í atvinnuskyni.
Þríeykið var sakfellt fyrir að reka spilavíti í atvinnuskyni.
Hæstiréttur Íslands þyngdi í dag dóm yfir manni sem var sakfelldur fyrir rekstur spilavítisins Poker and Play í Skeifunni frá árinu 2010 til 2012.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt manninn til 12 mánaða fangelsisvistar en þar af voru níu mánuðir á skilorði til tveggja ára. Hæstiréttur ákvað að að þyngja dóminn í 18 mánaða fangelsisvist, en við ákvörðun refsingarinnar var þess gætt að þáttur hans í málinu var veigamestur í þeim brotum sem sakfellt hefur verið fyrir. Ákvað Hæstiréttur að fresta skuli fullnustu 15 mánaða af refsingunni skilorðsbundið í tvö ár.

Annar maður og kona höfðu einnig hlotið dóma í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna málsins. Fengu þau níu mánaða fangelsisdóm í héraði, þar af sex mánuði á skilorði til tveggja ára.

Hæstiréttur ákvað hins vegar í dag að milda refsingu þeirra þannig að fresta skal fullnustu refsingar þeirra og að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms haldi þau skilorði. Var það gert í ljósi þess að þáttur þeirra hafði verið mun veigaminni en mannsins sem fékk þyngsta dóminn og var einnig tekið tillit til þess að málsmeðferðin dróst verulega.

Voru þau sakfelld fyrir brot almennra hegningarlaga og fyrir peningaþvætti með því að hafa á tilteknu tímabili rekið fjárhættuspilið og tekið, nýtt eða aflað sér ávinnings með því að reka það í atvinnuskyni og komið öðrum til þátttöku í þeim í húsnæði sem félag, sem þau voru í forsvari fyrir, leigði.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×