Innlent

Áfengi, bensín og tóbak hækka í verði

Birgir Olgeirsson skrifar
Alls er áætlað að tekjur af áfengisgjaldi muni nema 17,7 milljörðum króna
Alls er áætlað að tekjur af áfengisgjaldi muni nema 17,7 milljörðum króna Vísir/GVA
Bensín, áfengi og tóbak hækka um 2,5 prósent umfram verðbólgu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2017. Þar kemur fram að gjaldskrár fyrir fyrir bensíngjald, olíugjald, kolefnisgjald, gjöld á áfengi og tóbak og bifreiðagjald hækki um 2,5 prósent umfram verðbólgu. Eru tekjuáhrif þessarar hækkunar metin um 1,7 milljarðar króna á árinu 2017.

Alls er áætlað að tekjur af áfengisgjaldi muni nema 17,7 milljörðum króna og 6,2 milljarðar króna af tóbaksgjaldinu. Tekjur af tóbaksgjaldi eru taldar aukast lítillega milli ára en þar mun vegast á áætlaður tveggja prósenta samdráttur í tóbakssölu og hækkun tóbaksgjalds. 

Með þessari hækkun mun áfengisgjaldið hækka hlutfallslega mest, meðal annars vegna þess að í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir að kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna og fjölgun ferðamanna segi til sín í rúmlega 4 prósenta vexti þessa skattstofns.

Eldsneytisgjöld eru áætluð samanlagt 26,9 milljarðar króna á næsta ári og er miðað við þriggja prósenta aukningu að meðaltali í eldsneytissölu. Búast má við meiri aukningu á heildarakstri en stækkandi floti sparneytnari bifreiða vegur þar á móti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×