Lífið

Biggi á Airwaves: „Pabbi, er Emmsjé Gauti mannæta?“

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Birgir Örn Steinarsson, betur þekktur sem Biggi í Maus, deilir Iceland Airwaves upplifun sinni með lesendum Vísis á meðan á tónlistarhátíðinni stendur.
Birgir Örn Steinarsson, betur þekktur sem Biggi í Maus, deilir Iceland Airwaves upplifun sinni með lesendum Vísis á meðan á tónlistarhátíðinni stendur.
Við dóttir mín erum á þeytingi í gegnum rigninguna í Vesturbænum. Það er þegar orðið dimmt enda klukkan er að verða sex. Uppáhaldið okkar, Emmsjé Gauti, er við það að hefja fyrstu off venue tónleika sína á þessari Airwaveshátíð á Kaffi Vest. Þetta er í fyrsta skiptið sem dóttir mín fær að bera goðið sitt augum en ég hef áður séð hann á tónleikum, fyrir fimm árum. Það var á Bestu útihátíðinni 2011, þegar Emmsjé var bæði kjaftforari og hárprúðari. 

Þá var ég að vinna sem sviðsstjóri á hátíðinni. Töluverð vandræði höfðu verið með Gauta sem þá var algjörlega óþekktur. Hann hagaði sér samt sem mesta stjarnan á svæðinu. Kvartaði sárann yfir því að vera of framarlega á dagskránni og var með kjaft. Eigendur hátíðarinnar voru búnir að nóg og höfðu ákveðið að láta henda honum út af svæðinu með fússi. Ég náði að tala þá til og Gauti fékk að koma fram. 

Ég hef aldrei sagt honum frá því og ég efast um að hann viti hvað hann komst nálægt því þann daginn að vera borinn út af svæðinu af gæslunni. Það er óhætt að segja að drengurinn var með Rugluna á háu stigi. Ruglan er þegar hugmyndir um eigið ágæti eru úr samhengi við alheiminn.

Á leiðinni á tónleikana hitar dóttir mín upp með því að syngja textann við uppáhalds lagið hennar, Silfurskotta.

„Má ég smakka þetta skinn?,” syngur hún gallalaust. Snýr sér svo að mér og spyr. „Pabbi, er Emmsjé Gauti mannæta, eða hvað? Af hverju er hann að éta skinn?“

Hún er sjö ára, þannig að ég er ekkert sérstaklega spenntur að útskýra þetta fyrir henni. Ég hrist hausinn og þykist ekkert skilja. Hún heldur áfram með textann.

„Lærin snerta kinnarnar – tungan….“ Það kemur undarlegur svipur á dóttur mina. „Ööö…. Pabbi. Ég held að ég skilji þetta núna. Vil ekki tala um það… þetta er dónalegt.“ Ég þegi og labba áfram. Takk Gauti.



Emmsjé Gauti spilaði fyrir fólk á öllum aldri í gær.Mynd/Edda Hafsteinsdóttir
Þegar við komum inn er troðið á Kaffi Vest. Eftir fyrsta lagið fer Gauti beint upp á borð þar sem hann er það sem eftir er af gigginu. Þarna inni er fólk á öllum aldri. Alveg frá 2 ára upp í 60. Allir eru skælbrosandi. Bæði nafntogaðir og meira áhugaverðir. Gauti keyrir í hvern slagarann á fætur öðru. Krakkarnir syngja með og hinir fullorðnu þykjast ekki kunna textann þar sem nálægðin við Gauta er gífurleg. 

Krakkarnir „gilla á sér bakið“ (það má alveg einhver útskýra það fyrir mér hvað það þýðir) og öskra „upp með hendur moðerfokker!“ og elska það. Gauti horfir í augun á þeim, gefur þeim fimmur og er fagmaður fyrir allan peninginn. Eða… nei, hann er að gefa vinnuna sína enda frítt inn.

„Þið megið alveg kaupa mörjendæs þarna úti horni,“ segir Gauti og bendir á félaga sinn sem er að selja derhúfur, boli, geisladiska og vínylplötur. Von er á Emmsjé Gauta dótakallinum í lok nóvember.

Hilmar Þór Guðmundsson var meðal gesta á Kaffi Vest í gær og tók þessa flottu mynd að neðan.



„Það væri fínt ef þið mynduð kaupa eitthvað. Ég er svo blankur út af því að þið eruð alltaf að dánlóda öllu. Ég á dóttur og hef ekki átt efni á bleyjum í margar vikur.“

Allir hlæja.

„Ég hef verið að vefja hana inn í handklæði til þess að redda mér.“

Allir hlæja meira. Ef þetta væri einhver annars staðar á Íslandi og stjarna á stærð við Emmsjé Gauta myndi kasta svona fram myndi ég halda að hann væri að grínast. Gauti framleiðir allt sjálfur, dreifir öllu sjálfur, selur allt sjálfur og er nær algjörlega sjálfstæður. Hann lætur Herbert Guðmundsson líta út eins og viðvaning.

Emmsjé Gauti tróð svo upp í Hörpu í gærkvöldi og var stemningin afar góð.Vísir/Andri Marinó
Miðað við hversu illa íslenski tónlistarbransinn verðlaunar stjörnur sínar, þá kæmi mér ekkert á óvart að það komi dagar þar sem Gauti á ekki fyrir bleyjum.

Þakið ætlar að springa af húsinu þegar Gauti tekur Reykjavík, Strákarnir og Silfurskotta.

„Góðir gestir… má ég kynna hingað á Kaffi Vest… Aron Can!“ Unglingsstelpurnar fá næstum því kast af geðshræringu. Það er eins og Bítlarnir séu að mæta. Þær horfa í kringum sig, en hvergi er neinn Aron Can að finna.

„Djók,“ segir Gauti og tekur viðlagið við Silfurskottuna sjálfur.

Eftir giggið gefur Gauti sér tíma til þess að heilsa upp á krakka, gefa selfies og fimmur. Ef hann er enn með Rugluna, þá fer töluvert lítið fyrir henni. 

Enginn annar en Gauti hefur náð að sameina svona breitt bil tónlistaráhugamanna í ár. Í alvöru, 3 – 60 ára… það er virkilega vel gert. Það er ekki aftur snúið fyrir hann Gauta. Hann verður þekktur það sem eftir er. Hann er núna á toppnum og ef platan hans Vagg & Velta vinnur ekki plötu ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum þá er eitthvað að kerfinu. Enginn annar hefur unnið jafn mikið fyrir því. Fimm stjörnu gigg!

Birgir Örn Steinarsson, betur þekktur sem Biggi í Maus, deilir Iceland Airwaves upplifun sinni með lesendum Vísis á meðan á tónlistarhátíðinni stendur.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.