Lífið

Biggi á Airwaves: Dáleiðandi stelpurokk, tvífarar og íslenskir prinsar

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Greinahöfundur hefur lent í ýmsum uppákomum á Airwaveshátíðinni í ár.
Greinahöfundur hefur lent í ýmsum uppákomum á Airwaveshátíðinni í ár. Vísir
„Þú ert alveg eins og Jamie Redknapp,“ segir drengur sem er að reyna sníkja sígó af mér fyrir utan Hörpu. Málið er að ég reyki ekki, heldur veipa.

„Hver?,“ spyr ég og sé strax eftir því. Ég er að reyna komast á tónleika Reykjavíkurdætra í Silfurbergi áður en þeir klárast.

„Hetjan mín. Hann bjargaði unglingsárum mínum. Hann spilaði með Liverpool. Þið eru tvífarar! Áttu ekki sígó, eða? Ég reyki sko ekki, bara þegar ég er fullur!“

Ég asnast til þess að draga smók af veip-pípunni minni á meðan ég kinka kolli.

„Hvað er þetta? Má ég fá smók af þessu,“ segir hann og teygir sig í græjuna.

„Sko, ég er að reyna hrósa þér sko. Hann er geðveikt myndarlegur maður,“ segir drengurinn á meðan reykurinn flæðir úr vitum hans. Ég teygi mig aftur í pípuna.

„Takk fyrir  það,“ segi ég. Gríp græjuna og reyni að sniglast fram hjá. Hann heldur áfram að tala við mig á meðan.

Þessi stutta leið frá andyri Hörpu upp að Silfurbergi er óvenju löng vegna fólksfjöldans. Þegar ég loksins kemst að salnum heyri ég rafbassatrommuna slá fjögur slög.

„Takk fyrir,“ segir einhver í hljóðnemann og áhorfendur fagna kröftuglega. Svo kvikna ljósin. Allt búið. Mér hefur enn og aftur tekist að missa af því að sjá Reykjavíkurdætur á sviði.

Ég veiði nokkra vini mína úr þvögunni sem kemur út úr salnum. Næst á dagskrá er bandaríska rokksveitin Warpaint.

Tónlist stúlknanna í Warpaint er ekkert endilega skreytt fallegustu melódíum í heimi.Vísir/Andri Marinó

Warpaint

Tónlist stúlknanna í Warpaint er ekkert endilega skreytt fallegustu melódíum í heimi. Satt best að segja er söngurinn frekar einsleitur og fáar nótur í laglínum. Sjarmi Warpaint liggur nefnilega ekki í söngnum heldur í hrynjandanum og undirspilinu.

Ég heyrði fyrst af þeim fyrir sex árum síðan þegar þær gáfu út plötuna The fool. Tónlistin er enn hrárri á sviði og yfirvegaðri. Þær voru að gefa út sína þriðju plötu Heads up sem ég hef ekki heyrt áður en fer beint á fóninn eftir þessa tónleika.

Stelpurnar rótera á milli sín söng, bassa og gítar á meðan trommuleikarinn er ein sú þéttasta og svalasta sem ég hef séð lengi. Hún spilar í mynstrum og það er dáleiðandi að hlusta á hana og horfa. Gítarleikararnir spila líka bara einfaldar nótur og laglínur, aldrei hljóma.

Warpaint eru hreint út sagt, afbragð.

Tvífari númer tvö

Eftir tónleikana rekumst við Dr. Páll Ragnar Pálsson félagi minn úr Maus á Kristján Frey - tvífara minn. Hvorugur okkar tengjum við að líkjast hvor öðrum en báðir okkar höfum nokkrum sinnum lent í aðstæðum þar sem við hittum fólk út í bæ, eigum við það samtal og áttum okkur svo á því að viðkomandi heldur að hann sé að tala við hinn. Hvorugur okkar hefur nokkurn tímann leiðrétt misskilninginn þegar hann kemur upp.

“Þetta er fyrsta Airwaves hátíðin sem ég man eftir mér, þar sem ég er ekki að spila,” segir Kristján en hann trommar bæði með Reykjavík! og Prins Póló.

„Nú? Ertu ekki með prinsinum á eftir?“ spyr ég.

„Nei, hann ákvað að endurgera allt sjófið sitt með Árna úr FM Belfast.“

Algeng örlög hljóðfæraleikara sem eru í hljómsveit sólóartista hugsa ég, að vera skipt út fyrir tölvukubb. Það þarf engan endurskoðanda til þess að reikna það dæmi til enda.

Þegar við mætum inn í Gamla Bíó er bandaríska söngkonan Frankie Cosmos að spila. Við erum greinilega snemma í því og um 20 mínútur þar til að Prinsinn á að fara á svið með nýja sjófið. Ég og Dr. Páll Ragnar göngum inn í salinn og gefum Frankie Cosmos kurteisislega tækifæri á að heilla okkur. Eftir um það bil 2 mínútur snýr Dr. Páll Ragnar sér að mér og segir;

„Jáh… þetta er afskaplega venjuleg tónlist.“

Við brosum báðir, snúum okkur í 180 gráður og göngum aftur út úr salnum.

Hvernig á að finna kærustuna þína í mannfjölda

Við barinn hittum við Árna Hjörvar úr bresku hljómsveitinni The Vaccines. Hann er búinn að týna kærustunni sinni, henni Ásu Dýradóttur úr Mammút. Við tökum hann upp á okkar arma. Ég set mig í spekingslegar stellingar og ákveð að kenna honum töfratrixið um hvernig maður eigi að fara að því að finna kærustuna sína í mannþröng.

„Ekki leita. Leyfðu henni að sjá um það. Stattu bara kyrr hér, við innganginn á salnum og hún mun birtast,“ segi ég og líður eins og Yoda.

Árni lítur undarlega á mig. Tekur svo upp símann sinn og sendir Ásu sms.

Sturla Atlas í stuði á miðvikudaginn.Vísir/Andri Marinó

Prins Póló

Ég ber þvílíka virðingu fyrir Svavari Pétri Eysteinssyni sem stökkbreytist í Prins Póló þegar hann setur upp pappakórónuna. Við höfum þekkst síðan að hann var feiminn nýbylgjurokkari í Breiðholtinu. Þá var hann hluti af hljómsveit sem ég man ekki einu sinni hvað hét. Alltaf fór hann sínar eigin leiðir og kærði sig kollóttan um vinsældir eða álit annarra. Hinn hrokafulli fortíðar ég var löngu búin að afskrifa hann sem mikilvæga einingu í bransanum.

Svo allt í einu, 15 árum síðar, fór Svavar að verða betri og betri. Um það leyti sem hljómsveit hans Skakkamanage fór að skila af sér góðum afurðum hætti hún og skyndilega kom út fyrsta plata Pins Póló, Jukk. Restina þekkja allir og í dag á Svavar fleiri, stærri og eftirminnilegri slagara en ég gæti leyft mér að dreyma um. Mikið er gaman og gott að hafa rangt fyrir sér annað slagið.

Giggið hans er æði. Lögin eru öll komin í litrík og kröftug FM Belfast klæði og það fer þeim vel. Árni Rúnar Hlöðversson er með honum á sviðinu og virðist vera mjög upptekinn bak við tölvuskjáinn. Svavar hefur fyrir vikið meira rými til þess að einbeita sér að því að trylla lýðinn með tilheyrandi popparatöktum. Það var ekki ein manneskja í húsinu sem stóð kyrr og allir komu hásir út. Gleðin skein af bulsugerðamanninum í lokin.

Sturla Atlas

Nasa er bara hálf fullt þegar Sturla Atlas koma sér fyrir á sviðinu. Kannski ekki skrítið þar sem þeir spiluðu fyrir troðfullum sal í Hörpu á miðvikudagskvöldið.

Sigurbjartur Sturla, Logi Pedró og hinir eru skýrasta birtingarmynd nýju senunnar á Íslandi. Sú sena einkennist skýrt af því að snúa baki við þeirri sveimandi krúttbylgju sem kom Ísland á tónlistarkortið á sínum tíma. Hér eru engin áhrif frá Sigur Rós, Sykurmolunum, Björk, múm eða Ólafi Arnalds. Bara ekki baun.

Áhrifin eru beint úr bandarískri síbylju og tónn Sturlu Atlas er það mikið í takt við nýjustu strauma og stefnur í poppheimum að þeir fá einhvern veginn að vera með í öllu. Eru til dæmis í hiphop-senunni þrátt fyrir að hér sé nú voða lítið rappað.

Það merkilega við Sturlu Atlas er slagarafjöldi sveitarinnar. Það er rétt rúmt ár síðan sveitin lét fyrsta á sér kræla og salurinn syngur með 5 – 6 lögum sem hljóma öll eins og klassíkarar. Öryggið á sviðinu er líka algjört. Hér eru augljóslega fagmenn á ferð. Ef ég væri erlendur útsendari stórs plötufyrirtækis þá væri Sturla Atlas eina íslenska bandið úr hiphop-senunni sem ég myndi bjóða útgáfusamning. Þeir einir eru tilbúnir fyrir alþjóðamarkaðinn.

Birgir Örn Steinarsson, betur þekktur sem Biggi í Maus, deilir Iceland Airwaves upplifun sinni með lesendum Vísis á meðan á tónlistarhátíðinni stendur. 


Tengdar fréttir

Biggi á Airwaves: „Pabbi, er Emmsjé Gauti mannæta?“

Við dóttir mín erum á þeytingi í gegnum rigninguna í Vesturbænum. Það er þegar orðið dimmt enda klukkan er að verða sex. Uppáhaldið okkar, Emmsjé Gauti, er við það að hefja fyrstu off venue tónleika sína á þessari Airwaveshátíð á Kaffi Vest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.