Fótbolti

Elías Már: Versta tilfinning sem ég hef fundið fyrir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Elías Már Ómarsson átti fínan leik þegar Ísland tapaði 2-4 gegn Úkraínu í lokaleik u21-landsliðsins gegn Úkraínu í undankeppninni fyrir EM sem fram fer í Póllandi á næsta ári. Hann skoraði seinna mark Íslands og var líflegur út leikinn. Hann segir að seinni hálfleikurinn hafi orðið Íslandi að falli.

„Við ætluðum að fara út í seinni hálfleikinn nákvæmlega eins og í þeim seinni. Halda hreinu og skora allavega eitt mark í viðbót. Við áttum fínan fyrri hálfleik og náum að pota inn marki. Það var það sama á dagskránni í seinni hálfleik en það gekk ekki upp,“ segir Elías Már.

Hann var ekki hrifinn dómara leiksins sem Elías fannst leyfa Úkraínumönnum að komast upp með allt of mikið.

„Mér fannst Úkraínumenn byrja að tefja frá fyrstu mínútu. Það hægði á leiknum og dómarinn leyfði það. Það fór í taugarnar á mörgum leikmönnum og sérstaklega mér,“ segir Elías Már sem bætir við að ef til vill hefði Ísland átt að nýta sér hvað dómarinn leyfði mikið í leiknum.

Hann var sár og svekktur í leikslok enda súrt að tapa heimaleik þar sem sigur hefði tryggt sætið á lokamótinu í Póllandi í sumar.

„Þetta er glatað og alveg ömurleg tilfinning. Það voru allir svo spenntir fyrir þessu. Þetta er versta tilfinning sem ég hef fundið fyrir í langan tíma.“


Tengdar fréttir

Aron Elís: Við klúðruðum þessu sjálfir

Aron Elís Þrándarsson var súr á svipinn eftir að Ísland tapaði gegn Úkraínu í lokaleik undankeppninnar fyrir Evrópukeppni u-21 í fótbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×