Johaug er ein allra besta skíðagöngukona heims en hún varð Ólympíumeistari í 4x5 kílómetra skíðagöngu í Vancouver árið 2010 og þá vann hún til silfur- og bronsverðlauna á ÓL í Sochi fyrir tveimur árum. Johaug hefur einnig unnið til sjö gullverðlauna á HM en hún tók þrenn á HM 2015 í Falun fyrir tveimur árum síðan.
Johaug segist hafa fengið efnið úr sólarvörn sem læknir norska landsliðsins Fredrik Bendiksen, sagði henni að nota. Hann fullyrti við Johaug að efnið væri ekki á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins, WADA.

Hún smurði sólaráburðinum á varir sínar þegar norska liðið var við æfingar á Ítalíu í ágúst en Johaug glímdi við mikinn varaþurrk á meðan æfingum stóð.
Bendiksen gekkst við mistökum sínum og sagði á fréttamannafundi norska landsliðsins í dag að hann væri hættur. Annað væri einfaldlega ekki í boði eftir þessi risastóru mistök.
Sjálf grét Johaug hástöfum þegar hún tjáði sig um málið á fréttamannafundinum í dag.
„Ég vil byrja á að segja að ég er alveg niðurbrotin. Ég get ekki lýst þessari stöðu og ég engan vegin lýst því hvernig mér hefur liðið síðustu vikuna. Þetta hefur verið versta vika ævi minnar,“ sagði sú norska.
Johaug þarf að bíða eftir endanlegum úrskurði WADA um hversu langt bannið verður en þeir keppendur sem finnast sekir um að nota clostebol fá oftast eins árs keppnisbann.
Myndband frá blaðamannafundinum þar sem Johaug reynir að tala í gegnum tárin má sjá hér að neðan.