Breytingar breytinga vegna Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 8. október 2016 07:00 Staðan á sviði stjórnmálanna er um margt fordæmalaus nú þegar styttist í kosningar. Fjöldi flokka er í framboði og stefnumálin misjafnlega skýr. Kannanir benda til að þingflokkarnir verði sjö og ekki verði mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn eins og mörgum þykir eftirsóknarvert á Íslandi. Við gætum því verið að horfa á gerbreytt mynstur á Alþingi þar sem aukin krafa yrði um samvinnu og málamiðlanir. Í slíku þarf ekki að felast sú hætta sem sumir halda fram. Frændur okkar Danir hafa til að mynda um áraraðir búið við flókin stjórnarmynstur og minnihlutastjórnir en vegnað vel. Við þurfum því varla að óttast að stöðugleika verði ógnað þótt stjórnmálamennirnir þurfi í auknum mæli að finna málum farveg í sameiningu. Þvert á móti getur slíkt verklag breytt stjórnmálamenningunni til batnaðar. Hitt er annað mál að aðstæður á Íslandi eru um margt ákjósanlegar. Hér er hagvöxtur umfram samanburðarlönd, stýrivextir lágir í sögulegu samhengi og erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað á kjörtímabilinu. Krónan hefur sömuleiðis styrkst rækilega gagnvart helstu gjaldmiðlum. Vissulega hafa ytri aðstæður verið hagstæðar, ferðamannaflaumurinn heldur áfram og makríllinn hefur reynst viðvarandi búbót. Staðreyndin er samt sú að núverandi ríkisstjórn hefur um margt haldið vel á hagstjórnarspöðunum, og ber þar helst að nefna lok á uppgjörum slitabúanna og afnám gjaldeyrishafta. Sumir myndu jafnvel segja að varhugavert væri að skipta um hest í miðri á. Þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er áhugaverður samanburður í því samhengi. Í sumarbyrjun var almennt talið að Bretar byggju við eitt sterkasta hagkerfi í Evrópu. Síðan kom atkvæðagreiðslan um Brexit og ákvörðun um að ganga úr Evrópusambandinu. Pundið hefur hríðfallið og hlutabréfamarkaðir sömuleiðis. Skjótt skipast veður í lofti. Forvitnilegt var að fylgjast með viðbrögðum breskra kjósenda eftir að úrslitin urðu ljós. Sumir höfðu ekki kynnt sér málin nægilega, aðrir sögðust jafnvel hafa verið að mótmæla sitjandi stjórnvöldum og alls ekkert vilja ganga úr Evrópusambandinu. Forvígismenn útgöngu viðurkenndu svo strax eftir að úrslit voru ljós að alls ekkert hefði verið að marka stærstu loforð þeirra og fullyrðingar. Þá var hins vegar horft fram á orðinn hlut. Efnahagslegum stöðugleika var stefnt í hættu allt að því að óþörfu án þess það virtist sérlega ígrundað. Í þessum samanburði felst alls engin ábending um að kjósa núverandi stjórnarflokka, ekki frekar en að í þeirri hugmynd að fjölflokka mynstur geti bætt stjórnmálamenninguna felist hvatning til að kjósa smærri eða nýrri flokka. Það er hins vegar góð regla að ígrunda vel afstöðu sína og reyna að átta sig á þeim loforðum sem á okkur dynja úr mörgum áttum þessa dagana.Þessi grein birtst fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brexit Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Staðan á sviði stjórnmálanna er um margt fordæmalaus nú þegar styttist í kosningar. Fjöldi flokka er í framboði og stefnumálin misjafnlega skýr. Kannanir benda til að þingflokkarnir verði sjö og ekki verði mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn eins og mörgum þykir eftirsóknarvert á Íslandi. Við gætum því verið að horfa á gerbreytt mynstur á Alþingi þar sem aukin krafa yrði um samvinnu og málamiðlanir. Í slíku þarf ekki að felast sú hætta sem sumir halda fram. Frændur okkar Danir hafa til að mynda um áraraðir búið við flókin stjórnarmynstur og minnihlutastjórnir en vegnað vel. Við þurfum því varla að óttast að stöðugleika verði ógnað þótt stjórnmálamennirnir þurfi í auknum mæli að finna málum farveg í sameiningu. Þvert á móti getur slíkt verklag breytt stjórnmálamenningunni til batnaðar. Hitt er annað mál að aðstæður á Íslandi eru um margt ákjósanlegar. Hér er hagvöxtur umfram samanburðarlönd, stýrivextir lágir í sögulegu samhengi og erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað á kjörtímabilinu. Krónan hefur sömuleiðis styrkst rækilega gagnvart helstu gjaldmiðlum. Vissulega hafa ytri aðstæður verið hagstæðar, ferðamannaflaumurinn heldur áfram og makríllinn hefur reynst viðvarandi búbót. Staðreyndin er samt sú að núverandi ríkisstjórn hefur um margt haldið vel á hagstjórnarspöðunum, og ber þar helst að nefna lok á uppgjörum slitabúanna og afnám gjaldeyrishafta. Sumir myndu jafnvel segja að varhugavert væri að skipta um hest í miðri á. Þjóðaratkvæðagreiðslan um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er áhugaverður samanburður í því samhengi. Í sumarbyrjun var almennt talið að Bretar byggju við eitt sterkasta hagkerfi í Evrópu. Síðan kom atkvæðagreiðslan um Brexit og ákvörðun um að ganga úr Evrópusambandinu. Pundið hefur hríðfallið og hlutabréfamarkaðir sömuleiðis. Skjótt skipast veður í lofti. Forvitnilegt var að fylgjast með viðbrögðum breskra kjósenda eftir að úrslitin urðu ljós. Sumir höfðu ekki kynnt sér málin nægilega, aðrir sögðust jafnvel hafa verið að mótmæla sitjandi stjórnvöldum og alls ekkert vilja ganga úr Evrópusambandinu. Forvígismenn útgöngu viðurkenndu svo strax eftir að úrslit voru ljós að alls ekkert hefði verið að marka stærstu loforð þeirra og fullyrðingar. Þá var hins vegar horft fram á orðinn hlut. Efnahagslegum stöðugleika var stefnt í hættu allt að því að óþörfu án þess það virtist sérlega ígrundað. Í þessum samanburði felst alls engin ábending um að kjósa núverandi stjórnarflokka, ekki frekar en að í þeirri hugmynd að fjölflokka mynstur geti bætt stjórnmálamenninguna felist hvatning til að kjósa smærri eða nýrri flokka. Það er hins vegar góð regla að ígrunda vel afstöðu sína og reyna að átta sig á þeim loforðum sem á okkur dynja úr mörgum áttum þessa dagana.Þessi grein birtst fyrst í Fréttablaðinu.