Viðskipti erlent

Skatturinn á eftir Airbnb

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Airbnb-leigusölum hefur fjölgað um nokkur hundruð prósent í Danmörku á fáeinum árum.
FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Airbnb-leigusölum hefur fjölgað um nokkur hundruð prósent í Danmörku á fáeinum árum. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Danska ríkisstjórnin vill að vefsíðan Airbnb, sem er risastór leigumarkaður fyrir ferðamenn, veiti skattayfirvöldum í Danmörku upplýsingar um leigutekjur Dana. Hærri frádráttur leigusala yrði háður því að upplýsingarnar komi frá Airbnb en ekki leigusalanum sjálfum. Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að hingað til hafi Airbnb aldrei afhent slíkar upplýsingar af fúsum og frjálsum vilja.

Bent er á að þeir sem leigja út húsnæði sitt í skammtímaleigu þéni vel og að Airbnb fái ákveðið hlutfall af tekjunum. Fyrirtækið er starfrækt í yfir 190 löndum og 35 þúsundum bæja. Víða um heim reyni yfirvöld að fá Airbnb til að afhenda gögn um hverjir leigusalarnir eru og hversu mikið þeir þéna.

Við fyrirspurn danska ríkisútvarpsins greinir Airbnb frá því að almennt þéni danskir leigusalar 13.800 danskar krónur á ári með því að leigja húsnæði sitt út í 22 nætur að meðaltali. Nú er lágmarksfrádrátturinn 24 þúsund danskar krónur á ári leigi menn út húsnæði, sem þeir búa í, í skammtímaleigu. Danska ríkisstjórnin er reiðubúin að hækka frádráttinn í 34 þúsund danskar krónur komi upplýsingarnar um tekjurnar sjálfkrafa frá Airbnb.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Airbnb 3.500 milljarða virði

Airbnb er eitt af fjórum verðmætustu fyrirtækjum í heiminum sem ekki eru skráð á markað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×