Gagnrýni

Ekki alltaf í fókus

Jónas Sen skrifar
Elmar var lengi að komast í gang í Kaldalóni á sunnudaginn.
Elmar var lengi að komast í gang í Kaldalóni á sunnudaginn. Vísir/Stefán
Tónlist

Ljóðatónleikar

Lög eftir Beethoven og Schumann. Elmar Gilbertsson söng, Gerrit Schuil lék á píanó.

Kaldalón í Hörpu

sunnudaginn 18. september



Elmar Gilbertsson tenór býr yfir einni fegurstu rödd íslenskra söngvara. Hún er silkimjúk, kraftmikil en líka full af fíngerðum, fögrum blæbrigðum ef svo ber undir. Elmar vakti verðskuldaða athygli í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson. Þar sló hann í gegn svo um munaði. En tónleikar hans og Gerrit Schuil píanóleikara í Kaldalóni í Hörpu á sunnudaginn ollu vonbrigðum.

Fyrst á dagskránni var Adelaide eftir Beethoven, og svo ljóðaflokkurinn An die ferne Geliebte. Rödd Elmars var ekki alltaf í fókus, sumir tónarnir voru bjagaðir, jafnvel óhreinir. Píanóleikurinn var sömuleiðis fremur óstöðugur, talsvert var um feilnótur sem voru hvimleiðar. Gerrit má þó eiga það að það var rétti karakterinn í túlkuninni, hún var svipsterk og fyllilega í anda Beethovens. En það var ekki nóg.

Þetta var synd, því tónlistin er í sjálfu sér hrífandi fögur. An die ferne Geliebte er merkilegt verk; Beethoven samdi það seint á ævinni. Andrúmsloftið er margbrotið, fullt af sársauka. Formið er óvanalega heilsteypt og laglínurnar eru himneskar. En á tónleikunum komust þær aldrei á flug, því miður.

Söngurinn var miklu betri í Dicht­er­liebe eftir Schumann. Elmar var þar kominn í gang og söng af fagmennsku. Hann var þó sífellt að horfa í nótnabókina, það virkaði eins og hann kynni ekki lögin. Þetta dró töluvert úr áhrifamætti túlkunarinnar.

Auðvitað kunni Elmar það sem hann var að syngja, en maður heyrði samt að honum hafði ekki tekist að gera lögin almennilega að sínum. Hann var bara að miðla einhverju fyrirfram ákveðnu til áheyrenda.

Vitaskuld á góður túlkandi að holdgera hugsun tónskáldsins og færa hana til hlustenda, en túlkunin verður jafnframt að koma frá hjartanu. Það gerði hún sjaldnast hér. Inntak skáldskaparins skilaði sér ekki þótt söngurinn væri tæknilega góður og röddin mögnuð. Tónlistarflutningurinn fór aldrei með mann í andlegt ferðalag eins og svona dagskrá á að gera.

Dichterliebe er dásamleg tónlist, full af ástarþrá. Píanóleikurinn er sérlega áberandi, mun meira en í sambærilegum ljóðum eftir Schubert, til að mynda. Þarna er ekki hægt að kalla píanóleikinn undirspil, hann stendur söngnum fyllilega jafnfætis. Í lokin er t.d. viðamikið eftirspil píanóleikarans. Þar lítur hann til baka og rifjar upp það sem gengið hefur á í öllu verkinu. Það er einstaklega fögur stund.

Gerrit gerði þetta sumpart ágætlega; margt í lögunum var þrungið fallegum litbrigðum. En það var of mikið af feilnótum, þær voru truflandi og gerðu að verkum að maður gat aldrei lokað augunum og gefið sig tónlistinni á vald.

Niðurstaða: Píanóleikurinn var ekki nægilega öruggur, söngvarinn var lengi að komast í gang og nokkuð vantaði upp á dýptina í túlkuninni.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. september 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.