Íslenski boltinn

Harpa: Fékk allt í einu athygli sem ég bjóst ekki við

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar
Harpa er markahæst í Pepsi-deildinni með 20 mörk.
Harpa er markahæst í Pepsi-deildinni með 20 mörk. vísir/anton
Umtalaðasta íþróttakona Íslands um þessar mundir, Harpa Þorsteinsdóttir, lagði upp jöfnunarmark Stjörnunnar gegn Breiðabliki í toppslagnum í Pepsi-deild kvenna í dag.

„Þetta gerist ekki sætara, þetta er svo ótrúlegt mikilvægt fyrir okkur. Það fór um mig sæluhrollur,“ sagði Harpa um augnablikið þegar boltinn lá í netinu hjá Blikum eftir skot Önu Victoriu Cate.

Stjarnan er nú algjörlega með örlögin í eigin hendi en vinni liðið tvo síðustu leiki sína verður það Íslandsmeistari.

„Þetta lítur ágætlega út en það er einmitt það hættulega. Við eigum eftir að mæta liðum í neðri hlutanum sem eru að berjast fyrir lífi sínu. Það verða erfiðir leikir fyrir okkur því hópurinn okkar er mjög brothættur,“ bætti Harpa við.

Þetta var síðasti leikur markadrottningarinnar í sumar en hún er sem kunnugt er barnshafandi. Mikið hefur verið rætt og ritað um Hörpu undanfarna daga, hvort hún muni eða ætti yfirhöfuð að spila, verandi komin 13 vikur á leið. Hún segir að umræðan hafi haft áhrif á sig.

„Jájá, ég viðurkenni það alveg. Ég fékk allt í einu voða mikla athygli sem ég bjóst ekki við. Og þetta er persónulegt, þetta snýr að mér og minni fjölskyldu,“ sagði Harpa.

„Það sást í dag, og í leiknum uppi á Skaga, að það er enginn gefa mér neinn afslátt, enda algjör óþarfi. Hver einasti leikmaður er inni á vellinum á sinni eigin ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×