Íslenski boltinn

Pepsi-mörk kvenna: Í svona leik eiga bara að vera toppdómarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Umdeilt atvik átti sér stað í stórleik Stjörnunnar og Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna á laugardaginn.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Blikum yfir á 53. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar var mark dæmt af liðinu.

Fanndís Friðriksdóttir átti þá skot að marki sem fór af varnarmanni Stjörnunnar í netið. Helgi Ólafsson, aðstoðardómari tvö, flaggaði hins vegar rangstöðu og því fékk markið ekki að standa.

Farið var yfir atvikið í Pepsi-mörkum kvenna sem voru á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 HD í kvöld.

„Þetta var fullkomlega löglegt mark,“ var samdóma álit Helenu Ólafsdóttur, Rögnu Lóu Stefánsdóttur og Vöndu Sigurgeirsdóttur.

„Það er auðvitað rosalega sorglegt ef þetta ræður úrslitum á þessu Íslandsmóti,“ sagði Ragna Lóa.

Stjarnan jafnaði metin 11 mínútum fyrir leikslok og er því enn með tveggja stiga forskot á Breiðablik þegar tvær umferðir eru eftir. Stjörnukonur þurfa því bara að klára sína leiki gegn KR og FH og þá er Íslandsmeistaratitilinn þeirra.

Vanda setti spurningarmerki við reynslu aðstoðardómaranna sem voru settir á leikinn.

„Það er líka spurning hversu reyndir þessir aðstoðardómarar eru?“ spurði Vanda.

„Í svona leik eiga bara að vera toppdómarar og mér finnst við eiga geta gert kröfu á það í kvennafótboltanum.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×