Íslenski boltinn

Blikar kláruðu Fylki á fimm mínútna kafla | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svava Rós skoraði eitt og lagði annað upp í öruggum sigri Blika.
Svava Rós skoraði eitt og lagði annað upp í öruggum sigri Blika. vísir/ernir
Breiðablik minnkaði forskot Stjörnunnar á toppi Pepsi-deildar kvenna niður í tvö stig með öruggum 4-0 sigri á Fylki í lokaleik 14. umferðar á Kópavogsvelli í kvöld.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Kópavogsvellinum í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

Blikar gengu frá leiknum á fimm mínútna kafla snemma leiks þegar þær skoruðu þrjú mörk.

Blikar voru á ferðinni í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í Wales í síðustu viku en það var ekki að sjá að þátttakan sæti í leikmönnum Íslandsmeistaranna.

Svava Rós Guðmundsdóttir braut ísinn á 14. mínútu og þremur mínútum síðar bætti Esther Rós Arnarsdóttir öðru marki við. Fyrirliðinn Rakel Hönnudóttir lagði bæði mörkin upp.

Blikar tóku sér svo aðeins tveggja mínútna pásu áður en Hildur Antonsdóttir skoraði þriðja markið eftir stoðsendingu Fanndísar Friðriksdóttur. Ótrúlegur kafli hjá Íslandsmeisturunum og leik í raun lokið.

Blikar fengu færi til að skora fleiri mörk en létu eitt duga. Það gerði hin nýsjálenska Olivia Chance á 76. mínútu eftir sendingu frá Svövu Rós. Lokatölur 4-0, Breiðabliki í vil

Gríðarleg spenna er nú komin í toppbaráttu Pepsi-deildar kvenna eftir úrslitin í 14. umferð.

Stjarnan er á toppnum með 34 stig, tveimur stigum meira en Breiðablik. Valur er svo í 3. sæti með 30 stig. Stjörnukonur og Blikar mætast í þarnæstu umferð og þá leiða Breiðablik og Valur saman hesta sína í lokaumferðinni.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

vísir/ernir

Tengdar fréttir

Eyjakonur sóttu sigur á Skagann

ÍBV vann sinn fjórða sigur í síðustu fimm leikjum þegar liðið lagði ÍA að velli í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna á Norðurálsvellinum á Akranesi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×