Dýrmætur skóli Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 3. september 2016 07:00 Peningarnir sem lagðir hafa verið í fyrirtækið Plain Vanilla, eina helstu vonarstjörnu á leikjatölvumarkaði, hafa ekki farið til spillis. Þó að milljarða hlutafé sé í óvissu og fáeinir vel upplýstir fjárfestar sitji hugsanlega eftir með sárt ennið mun þekking og reynsla starfsfólksins lifa. Fyrirtækið er dýrmætur skóli, sem erfitt er að meta til fjár. „Gott dæmi um það í sprota- og nýsköpunarbixi er að í hvert skipti sem þau eyðileggjast verða ekki eftir rústir af verksmiðju, heldur verður eftir fólk sem kann eitthvað og því gengur betur næst,“ sagði Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri leikjaframleiðandans CCP, á nýsköpunarþingi fyrir fáum árum. Ástæða er til að rifja upp orð þessa farsæla forstjóra nú þegar Plain Vanilla þarf að loka starfsemi sinni hér í Reykjavík í bili vegna þess að sjónvarpsstöðin NBC hætti við gerð sjónvarpsþátta, sem áttu að byggjast á Quis-up tölvuleiknum. Starfsfólkinu, tuttugu manns, hefur verið sagt upp með lögmætum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla, fer ekki leynt með vonbrigði sín vegna ákvörðunar NBC. Hann viðurkennir að fyrirtæki hans hafi lagt of mörg egg í eina körfu. En um leið bendir hann á að hér á landi er skortur á tæknimenntuðu fólki og því ólíklegt að hæfileikaríkt starfsfólkið þurfi lengi að sitja auðum höndum. Á nýsköpunarþingi rifjaði Hilmar Veigar Pétursson upp svokallað OZ ævintýri. Stórfé tapaðist þegar OZ sigldi í strand. En Hilmar Veigar benti eftirminnilega á að OZ skildi eftir sig gífurleg verðmæti – reynslu og hugvit, sem síðar síaðist smátt og smátt út í atvinnulífið. Hann tilgreindi 30 fyrirtæki, sem beint tengdust OZ. Auk sjálfs óskabarnsins CCP eru þeirra á meðal nokkur af þekktustu nöfnum atvinnulífsins, með hundruð ef ekki þúsundir starfsmanna. Við þekkjum hliðstæður. Frumherjar í íslenskri kvikmyndagerð hafa mátt þola misjafna daga. Friðrik Þór, Hrafn Gunnlaugsson, Kristín Jóhannesdóttir, Ágúst Guðmundsson og Þráinn Bertelsson hafa ekki safnað í digra sjóði þrátt fyrir gifturíkan feril. En þau hafa lagt grunninn að blómlegri atvinnugrein. Færnin í kvikmyndagerð hefur orðið til smátt og smátt á æ fleiri sviðum kvikmyndanna. Nýjast er, að vart telst til tíðinda lengur að íslenskir leikarar fá hlutverk í erlendum kvikmyndum. Ekki má gleyma stórum sigrum Baltasars Kormáks. Öll eiga þau frumherjunum mikið að þakka. Samkvæmt opinberum tölum voru ársverk í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði 1.300 fyrir tveimur árum. Síðan hefur þeim fjölgað þrátt fyrir gífurlega harða alþjóðlega samkeppni. Til viðbótar hefur erlent kvikmyndagerðarfólk streymt hingað til lands undanfarin ár, flutt með sér þekkingu og reynslu. Fróðlegt verður að fylgjast með Þorsteini B. Friðrikssyni og metnaðarfullu starfsfólki Plain Vanilla næstu misserin. Engin ástæða er til að ætla annað en að kenningar CCP forstjórans um „sprota- og nýsköpunarbixið“ eigi við um þau. Gangi þeim allt í haginn.Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Lenda menn í fangelsi eftir misheppnaða skólagöngu? Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Litlu fyrirtækin – kerfishyggja og skattlagning Eiríkur S. Svavarsson Skoðun Reiknileikni Sambandsins Ragnar Þór Pétursson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun
Peningarnir sem lagðir hafa verið í fyrirtækið Plain Vanilla, eina helstu vonarstjörnu á leikjatölvumarkaði, hafa ekki farið til spillis. Þó að milljarða hlutafé sé í óvissu og fáeinir vel upplýstir fjárfestar sitji hugsanlega eftir með sárt ennið mun þekking og reynsla starfsfólksins lifa. Fyrirtækið er dýrmætur skóli, sem erfitt er að meta til fjár. „Gott dæmi um það í sprota- og nýsköpunarbixi er að í hvert skipti sem þau eyðileggjast verða ekki eftir rústir af verksmiðju, heldur verður eftir fólk sem kann eitthvað og því gengur betur næst,“ sagði Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri leikjaframleiðandans CCP, á nýsköpunarþingi fyrir fáum árum. Ástæða er til að rifja upp orð þessa farsæla forstjóra nú þegar Plain Vanilla þarf að loka starfsemi sinni hér í Reykjavík í bili vegna þess að sjónvarpsstöðin NBC hætti við gerð sjónvarpsþátta, sem áttu að byggjast á Quis-up tölvuleiknum. Starfsfólkinu, tuttugu manns, hefur verið sagt upp með lögmætum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla, fer ekki leynt með vonbrigði sín vegna ákvörðunar NBC. Hann viðurkennir að fyrirtæki hans hafi lagt of mörg egg í eina körfu. En um leið bendir hann á að hér á landi er skortur á tæknimenntuðu fólki og því ólíklegt að hæfileikaríkt starfsfólkið þurfi lengi að sitja auðum höndum. Á nýsköpunarþingi rifjaði Hilmar Veigar Pétursson upp svokallað OZ ævintýri. Stórfé tapaðist þegar OZ sigldi í strand. En Hilmar Veigar benti eftirminnilega á að OZ skildi eftir sig gífurleg verðmæti – reynslu og hugvit, sem síðar síaðist smátt og smátt út í atvinnulífið. Hann tilgreindi 30 fyrirtæki, sem beint tengdust OZ. Auk sjálfs óskabarnsins CCP eru þeirra á meðal nokkur af þekktustu nöfnum atvinnulífsins, með hundruð ef ekki þúsundir starfsmanna. Við þekkjum hliðstæður. Frumherjar í íslenskri kvikmyndagerð hafa mátt þola misjafna daga. Friðrik Þór, Hrafn Gunnlaugsson, Kristín Jóhannesdóttir, Ágúst Guðmundsson og Þráinn Bertelsson hafa ekki safnað í digra sjóði þrátt fyrir gifturíkan feril. En þau hafa lagt grunninn að blómlegri atvinnugrein. Færnin í kvikmyndagerð hefur orðið til smátt og smátt á æ fleiri sviðum kvikmyndanna. Nýjast er, að vart telst til tíðinda lengur að íslenskir leikarar fá hlutverk í erlendum kvikmyndum. Ekki má gleyma stórum sigrum Baltasars Kormáks. Öll eiga þau frumherjunum mikið að þakka. Samkvæmt opinberum tölum voru ársverk í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði 1.300 fyrir tveimur árum. Síðan hefur þeim fjölgað þrátt fyrir gífurlega harða alþjóðlega samkeppni. Til viðbótar hefur erlent kvikmyndagerðarfólk streymt hingað til lands undanfarin ár, flutt með sér þekkingu og reynslu. Fróðlegt verður að fylgjast með Þorsteini B. Friðrikssyni og metnaðarfullu starfsfólki Plain Vanilla næstu misserin. Engin ástæða er til að ætla annað en að kenningar CCP forstjórans um „sprota- og nýsköpunarbixið“ eigi við um þau. Gangi þeim allt í haginn.Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.