Breski hlauparinn Mo Farah segir að hann muni hætta að keppa á hlaupabrautinni eftir heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum í London á næsta ári.
Farah er sigursælasti breski frjálsíþróttakappinn frá upphafi á Ólympíuleikum en hann vann gull í bæði 5 og 10 þúsund metra hlaupi á leikunum í Ríó, rétt eins og hann gerði í London fyrir fjórum árum síðan.
Hann útilokar þó alls ekki að keppa á leikunum í Tókýó eftir fjögur ár en gæti þá keppt í maraþoni.
„Ég vil hætta að hlaupa á hlaupabrautinni árið 2017 og svo skulum við sjá til hvað ég get gert í maraþoninu,“ sagði hann en æfingafélagi hans, Galen Rupp, vann brons í maraþoninu í Ríó í gær.
Eitt af eftirminnilegustu augnablikum leikanna til þess er þegar Farah náði að vinna gull í 10 þúsund metra hlaupinu þrátt fyrir að hafa dottið í miðju hlaupi.
