Viðskipti innlent

Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hækkar töluvert milli ára

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hækkaði um 15,1%
Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hækkaði um 15,1%
Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hækkaði um 15,1 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Um er að ræða mestu árshækkun síðan á öðrum ársfjórðungi árið 2012 þegar hækkunin nam 15,4 prósentum.

Um 86 prósent af gistinóttum ferðamanna á síðasta ári komu til vegna erlendra ferðamanna. Ef verðþróun hótela og gistiheimila er skoðuð í erlendri mynt sést að hækkunin á öðrum ársfjórðungi nam 26 prósentum miðað við sama tímabil í fyrra. Það er mesta árshækkun síðan á fyrsta ársfjórðungi árið 2011. Meiri hækkun á verði gistingar í erlendri mynt má rekja til styrkingu krónunnar á undanförnum misserum.

Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans segir að meiri hækkanir það sem af er þessu ári miðað við fyrri ár megi eflaust rekja að mestu leyti til mikillar eftirspurnar á gistirými á sama tíma og innlendur launakostnaður hefur hækkað töluvert. Fjöldi erlendra ferðamanna hafa verið töluvert umfram framboð gistirýmis og herbergjanýting hefur stöðugt vaxið á síðustu árum. Aukning í komum umfram herbergjaframboð hefur leitt til þess að stöðugt fleiri ferðamenn bítast um hvert herbergi.

Verð tvöfaldast á sex árum

Verð á gistingu á öðrum fjórðungi er um 70 prósentum hærra en á sama fjórðungi 2010. Núverandi uppsveifla í ferðaþjónustu hófst árið 2011. Í erlendri mynt hefur verðið tvöfaldast á sama tímabili. Hækunnin hefur verið að meðaltali 12 prósent frá árinu 2010. Þessi verðhækkun virðist þó ekki hafa dregið úr komum ferðamanna á síðustu árum.

Lengi var fjöldi ferðamanna á hvert herbergi í kringum 60 á nokkuð þröngu tímabili en það hlutfall fór yfir 100 á síðasta ári og hefur ekki mælst hærra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×