Íslenski boltinn

Rakel: Erum að mæta mjög góðu liði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rakel tryggði Blikum bikarmeistaratitilinn 2013 og hér lyftir hún bikarnum.
Rakel tryggði Blikum bikarmeistaratitilinn 2013 og hér lyftir hún bikarnum. vísir/daníel
Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks, á góðar minningar frá eina bikarúrslitaleiknum sem hún hefur spilað.

Fyrir þremur árum mættu Blikar hennar gamla liði, Þór/KA, og skoraði Rakel markið sem tryggði Kópavogsliðinu bikarinn. Núna er Rakel fyrirliði Breiðabliks og vonast að sjálfsögðu eftir því að lyfta bikarnum í leikslok.

„Það er alltaf spennandi og skemmtilegt að spila bikarúrslitaleiki, sérstaklega á Laugardalsvelli,“ sagði Rakel á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ sem var haldin í tilefni af úrslitaleikjunum í Borgunarbikar karla og kvenna.

Andstæðingurinn í dag kemur frá Vestmannaeyjum og Rakel segir að Blika bíði erfitt verkefni.

Sjá einnig: Gjörólíkur leikstíll liðanna

„Þær eru með mjög gott lið og þetta verður jafn og spennandi leikur,“ sagði Rakel sem er að mestu ánægð með gengi Breiðabliks í sumar þó hún gráti nokkur töpuð stig í Pepsi-deildinni.

Það er nóg að gera hjá Blikum í ágúst en liðið spilar þá átta leiki, í deild, bikar og forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Þetta er þétt dagskrá og við þurfum að passa vel upp á okkur,“ sagði Rakel að lokum.

Bikarúrslitaleikur Breiðabliks og ÍBV hefst klukkan 19:15. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Þá verður einnig hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×