Enski boltinn

Klopp enn í sárum eftir tapið gegn Sevilla

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það var erfitt fyrir Klopp að taka tapinu.
Það var erfitt fyrir Klopp að taka tapinu. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir sig og sína menn enn í sárum eftir tapið gegn Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Basel í lok maí.

Liverpool spilaði frábærlega í fyrri hálfleik og var 1-0 yfir þökk sé glæsilegu marki Daniels Sturridge. Þá fannst enska liðinu að það ætti að fá eina ef ekki tvær vítaspyrnur.

Kevin Gameiro, franskur framherji Sevilla, jafnaði metin á fyrstu sekúndum seinni hálfleiks og spænska liðið bætti svo við tveimur mörkum og vann Evrópudeildina þriðja árið í röð.

Með sigrinum komst Sevilla bakdyramegin í Meistaradeildina en sigur í Evrópudeildinni gefur sæti í riðlakeppni hennar. Það var það sem Liverpool ætlaði sér þar sem liðið var aldrei í séns að ná Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Auðvitað er ég búinn að hugsa mikið um þetta. Það er langt síðan leikurinn kláraðist en mér líður enn þá illa,“ segir Klopp.

„Eftir leikinn var ég ekki í stuði til að tala um fyrri hálfleikinn en það er samt augljóst að við spiluðum rosalega vel og áttum að vera með meira forskot.“

„Við áttum að fá vítaspyrnu. Það er ýmislegt sem maður sér svona eftir á. Þetta er ekkert áhugavert því leiknum er lokið en sem manneskja er erfitt að sætta sig við allt sem gerðist,“ segir Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×