Íslenski boltinn

Dóttir landsliðshetju skoraði sitt fyrsta mark í Pepsi-deild kvenna | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thelma Lóa Hermannsdóttir, 17 ára gamall leikmaður Fylkis, skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki í gærkvöldi þegar Árbæjarstúlkur lögðu Selfyssinga, 3-1, í Pepsi-deild kvenna.

Hún kom fyrst inn í leikmannahóp Fylkisliðsins í fimmtu umferð Pepsi-deildarinnar en var ónotaður varamaður í fyrstu þremur leikjum sínum í efstu deild.

Thelma Lóa spilaði sínar fyrstu mínútur í meistaraflokki 13. ágúst þegar hún kom inn á gegn Þór/KA á 72. mínútu og hún gerði nóg til að heilla þjálfara sinn því hún var í byrjunarliðinu gegn Selfossi í fyrsta sinn í leik liðanna í gær.

Selfoss tók forystuna í leiknum og var 1-0 yfir í fyrri hálfleik en Shu-o Tseng jafnaði metin á fyrstu sekúndum seinni hálfleiks. Thelma Lóa skoraði svo með skalla á 80. mínútu eftir hornspyrnu Söndru Sifjar Magnúsdóttur sem innsiglaði 3-1 sigur Fylkis mínútu fyrir lok venjulegs leiktíma.

Thelma Lóa hefur ekki langt að sækja hæfileikana, en hún er dóttir landsliðshetjanna Rögnu Lóu Stefánsdóttur, fyrrverandi þjálfara kvennaliðs Fylkis, og Hermanns Hreiðarssonar, núverandi þjálfara karlaliðs Fylkis.

Ragna Lóa spilaði 35 leiki fyrir íslenska landsliðið og var þrisvar sinnum fyrirliði en Hermann Hreiðarsson er einn sá leikjahæsti í sögunni með 89 leiki, þar af 24 sem fyrirliði.

Mark Thelmu Lóu má sjá í spilaranum hér að ofan en umferðin í heild sinni verður gerð upp í Pepsi-mörkum kvenna klukkan 21.15 í kvöld á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×