Íslenski boltinn

"Verður vonandi ekki jafn drepleiðinlegt og síðast"

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var hart barist í leiknum á Kópavogsvelli fyrir tveimur vikum.
Það var hart barist í leiknum á Kópavogsvelli fyrir tveimur vikum. vísir/hanna
Stjarnan og Breiðablik mætast í fyrri undanúrslitaleiknum í Borgunarbikar kvenna á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

Aðeins tvær vikur eru síðan liðin mættust í Pepsi-deildinni en þar fóru Blikar með sigur af hólmi, 1-0.

Sá leikur var lítið fyrir augað en Harpa Þorsteinsdóttir, markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar, á von á betri leik í kvöld.

„Ég held að þessi leikur muni hafa upp á allt annað bjóða en sá síðasti,“ sagði Harpa í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar í hádeginu en þar voru veitt verðlaun fyrir fyrri umferðina í Pepsi-deildinni.

Harpa var valin besti leikmaður fyrri hlutans en hún hefur skorað 13 mörk í fyrstu níu leikjum tímabilsins.

„Bæði lið verða að sækja til sigurs og vera ákveðin. Það verður væntanlega lagt upp með að vera ekki með svona drepleiðinlegan fótbolta og síðast. Þetta verður vonandi hraður leikur og skemmtilegur.“

Hallbera Gísladóttir, vinstri bakvörður Breiðabliks og íslenska landsliðsins, var í liði umferða 1-9 líkt og Harpa. En við hverju mega áhorfendur búast í leiknum í kvöld að mati Hallberu?

„Maður veit ekki. Þessir leikir gegn Stjörnunni hafa ekki verið mikið fyrir augað. Þetta eru tvö mjög sterk lið og hvorugt þeirra vill gefa færi á sér,“ sagði Hallbera.

„En þetta er bikarinn þannig að annað liðið mun fara áfram. Ég held að þetta verði skemmtilegur leikur.“

Breiðablik hefur unnið þrjá síðustu deildarleiki sína gegn Stjörnunni, alla 1-0. Hallbera segir að Blikar séu samt ekki komnir með tak á Garðbæingum.

„Þetta eru mjög jafnir leikir og við höfum náð að halda hreinu. Það skiptir miklu máli í svona leikjum þar sem lítið er skorað. Okkur hefur gengið vel í síðustu leikjum og vonandi heldur það áfram,“ sagði Hallbera.

Leikur Stjörnunnar og Breiðabliks hefst klukkan 19:15. Hægt verður að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×