Íslenski boltinn

Þjálfari Selfoss kallar sjálfa sig til baka úr láni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
O'Brien gæti leikið sinn fyrsta leik með Selfossi þegar liðið tekur á móti ÍBV á morgun.
O'Brien gæti leikið sinn fyrsta leik með Selfossi þegar liðið tekur á móti ÍBV á morgun. vísir/hanna
Valorie Nicole O´Brien, þjálfari Selfoss í Pepsi-deild kvenna, hefur fengið leikheimild með liðinu.

O'Brien lék sem lánsmaður með HK/Víkingi í 1. deildinni fyrri hluta sumars en hún skoraði tvö mörk í sjö deildarleikjum með liðinu.

O'Brien, sem er aðeins 26 ára, var ráðinn þjálfari Selfoss síðasta haust en hún tók við starfinu af Gunnari Rafni Borgþórssyni.

O´Brien lék áður með Selfossi árin 2012 og 2013 og skoraði þá 10 mörk í 36 deildarleikjum með liðinu.

Illa hefur gengið hjá Selfyssingum í síðustu leikjum. Liðið hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og er dottið niður í 7. sæti Pepsi-deildarinnar. Þá steinlá Selfoss, 5-0, fyrir ÍBV í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

O'Brien gæti leikið sinn fyrsta leik með Selfossi gegn ÍBV á morgun, að því gefnu að hún velji sjálfa sig í liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×