Íslenski boltinn

Máni ósáttur: Ekki séð einn ungan Garðbæing hlaupa inn á völlinn í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/anton/eyþór
Þorkell Máni Pétursson, sérfræðingur í Pepsi-mörkum kvenna og stuðningsmaður Stjörnunnar, lét sitt lið heyra það í þætti gærkvöldsins.

Nýjasti leikmaður Stjörnunnar, Amanda Frisbie, kom inn á sem varamaður á 22. mínútu í 1-2 sigrinum á Þór/KA á þriðjudaginn en fór af velli fjórum mínútum fyrir leikslok.

„Hún er mjög teknískur og góður leikmaður en að spila vörn er ekkert það skemmtilegasta sem hún gerir,“ sagði Máni.

„Stjörnuliðið hefur aðallega náð árangri út af því það vinnur gríðarlega mikið. Þetta er vinnslulið, þetta eru bara iðnaðarmenn, og það hefur skilað Stjörnunni svona mörgum titlum í gegnum tíðina.

„Ég veit ekki hvort Óli [Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar] hafi tekið hana [Frisbie] út af því hún var meidd eða hvort hún einfaldlega ekki skilað nógu góðri vinnu.“

Frisbie spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna í bikarleiknum gegn Breiðabliki á föstudaginn. Helena Ólafsdóttir var ekki sátt með vinnuframlag Frisbie í þeim leik.

„Ég sá hana spila þennan undanúrslitaleik gegn Breiðabliki og hún vann ekki með liðinu, bakkaði ekki með því og var í raun úti á túni,“ sagði Helena.

Máni vill sjá fleiri uppaldar Stjörnustelpur fá tækifæri með meistaraflokknum.

„Það fer gríðarlega í taugarnar á mér að ég er ekki búinn að sjá einn ungan Garðbæing hlaupa inn á völlinn. En það er ekkert bara í kvennafótboltanum, heldur líka hjá körlunum,“ sagði Máni.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×