Íslenski boltinn

Martraðarendurkoma Söndru á gamla heimavöllinn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan er áfram með tveggja stiga forystu á toppi Pepsi-deildar kvenna eftir 3-0 sigur á Val á Samsung-vellinum í Garðabæ í dag.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að ofan.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom Stjörnunni á bragðið á 23. mínútu með furðulegu marki.

Harpa Þorsteinsdóttir sendi þá fyrir frá vinstri á Þórdísi sem var fyrir utan D-bogann. Þórdís átti að því er virtist hættulausan skalla að marki en Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals og fyrrverandi markvörður Stjörnunnar, misreiknaði sig illilega og boltinn hafnaði í netinu.

Fjórum mínútum síðar var staðan orðin 2-0 eftir að Ana Victoria Cate skoraði af stuttu færi eftir að Harpa potaði boltanum til hennar. Aftur leit Sandra illa út í markinu en hún átti slæman dag á gamla heimavellinum.

Eftir að hafa lagt upp tvö mörk í fyrri hálfleik skoraði Harpa þriðja mark Stjörnunnar á 81. mínútu. Donna Kay Henry sendi boltann fyrir frá vinstri og Harpa þrumaði honum í netið með vinstri fæti. Þetta var sjötta mark Hörpu í sumar en hún er markahæst í Pepsi-deildinni.

Stjarnan er sem fyrr sagði á toppi deildarinnar en Valskonur, sem biðu sinn fyrsta ósigur í sumar, eru í 4. sæti með átta stig, fimm stigum á eftir Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×