„Mér er orða vant. Þetta er algjörlega stórkostlegt,“ skrifar Sigmundur á Facebook-síðu sína. Hann lætur ekki þar við sitja og heitir því að gefa Hannesi Þór Halldórssyni fálkaorðu sína. Sigmundur var sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu 13 .desember 2014.
„Ef Hannes fær ekki fálkaorðuna gef ég honum mína,“ segir Sigmundur en líkt og flestum ætti að vera kunnugt vann Ísland 2-1 sigur á Englendingum í sextán liða úrslitum í Evrópumótinu í knattspyrnu í kvöld. Þeir halda því næst til Parísar þar sem þeir munu etja kappi við Frakka.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var spurður að því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld hvort ekki mætti gera ráð fyrir að landsliðsstrákarnir verði heiðraðir að mótinu loknu. Ólafur sagðist ekki geta svarað til um það fyrir fram, tíminn verði að leiða það í ljós.