Íslenski boltinn

Berglind og Kristín skoruðu fjögur hvor | Bikarmeistararnir áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Berglind fór á kostum í dag og skoraði fjögur mörk.
Berglind fór á kostum í dag og skoraði fjögur mörk. vísir/stefán
Fylkir, Breiðablik, Haukar og Stjarnan eru komin í 8-liða úrslit ásamt ÍBV, en þau fjögur fyrst nefndu tryggðu sig í átta liða úrslitin í dag.

Fylkir rústaði Fjarðabyggð/Hetti/Leikni F. á Fylkisvelli í dag, en lokatölur urðu 11-0 fyrir Pepsi-deildar liðinu.

Kristín Erna Sigurlásdóttir og Berglind Björg Þorvalsdóttir skoruðu sitthvor fjögur mörkin og þær Selja Ósk Snorradóttir, Hulda Hrund Arnardóttir og Sandra Sif Magnúsdóttir eitt hver.

Breiðablik lenti í engum vandræðum með að slá út Keflavík, en markaskorarar hafa ekki borist. Breiðablik missti þó mann af velli á 70. mínútu. Lokatölur 5-0.

Bikarmeistarar Stjörnunnar unnu 3-1 sigur á FH í Hafnarfirði, en Donna Kay Henry skoraði tvö mörk og Harpa Þorsteinsdóttir eitt.

Hin unga og efnilega Karólína Lea Vilhjálmsdóttir minnkaði muninn fyrir FH í uppbótartíma.

Fyrstu deildarlið Hauka gerði sér lítið fyrir og sló út ÍA með einu marki gegn engu. Margrét Björg Ástvaldsdóttir skoraði markið.

Klukkan 16:30 mætast svo Þór/KA og Grindavík og svo klukkan 17:30 mætast Selfoss og Valur. Á morgun mætast svo HK/Víkingur og Þróttur.

Dregið verður í átta liða úrslitin á mánudaginn og þessi lið eru komin í pottinn: ÍBV, Fylkir, Breiðablik, Haukar, Stjarnan.

Úrslit og markaskorar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×