Íslenski boltinn

Margrét Lára sá til þess að Valur fór með öll stigin úr Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Vísir/Vilhelm
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals og íslenska landsliðsins, tryggði Val fyrsta sigur sinn í Pepsi-deild kvenna í fótbolta á tímabilinu þegar hún skoraði eina markið í leik ÍBV og Vals í Eyjum í kvöld.

Þetta var fyrsti opinberi leikur Margrétar Láru Viðarsdóttur í Vestmanneyjum í tæp ellefu ár en hún er Eyjakona sem fór ung í víking, fyrst til Vals og svo út í atvinnumennsku.

Margrét Lára skoraði eina markið á 33. mínútu en hún hefur þar með skorað í átta síðustu leikjum sínum á Hásteinsvellinum þrjá þeirra hefur hún spilað með Val og fimm með ÍBV.

Valsliðið hafði gert jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Fylki og KR en Eyjakonur unnu 3-1 sigur á Fylki í Árbænum í umferðinni á undan. Fyrsti sigurinn kom hinsvegar í þriðju umferðinni en Valskonur eru líka enn taplausar í sumar.

Ólafur Tryggvi Brynjólfsson, þjálfari Vals gerði róttækar breytingar á vörninni fyrir leikinn á móti ÍBV en hann skipti út þremur af fjórum leikmönnum í varnarlínunni. Það skilaði sér í því að liðið hélt hreinu í fyrsta sinn í Pepsi-deildinni í sumar.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×