Erlent

AGS telur útgöngu úr ESB hafa slæmar afleiðingar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, segist ekki sjá neitt jákvætt við útgöngu Breta úr ESB.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, segist ekki sjá neitt jákvætt við útgöngu Breta úr ESB. vísir/AFP
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), segir það hafa mjög slæmar afleiðingar kjósi Bretar að ganga úr Evrópusambandinu (ESB). Lagarde sagðist fyrir helgi ekki sjá neitt jákvætt við að Bretar yfirgefi ESB. Ein afleiðing útgöngu þeirra gæti orðið efnahagskreppa.

Orð Lagarde ríma við það sem Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, sagði á fimmtudaginn. Hagsmunasamtökin Vote Leave, sem styðja útgöngu, sögðu í kjölfarið að AGS hefði skjátlast áður og að Lagarde hefði rangt fyrir sér nú, að því er segir í frétt BBC um málið.

Í skýrslu AGS um breska hagkerfið segir að útganga myndi hafa neikvæð og veruleg áhrif. Áður hefur stofnunin lýst því yfir að útganga myndi leiða til alvarlegs svæðisbundins og alþjóðlegs tjóns.

Lagarde sagði það hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að meta áhættuna af afleiðingum kosninganna. Útganga úr ESB væri ekki sérmál Breta heldur snerti alþjóðaefnahagskerfið. Hún sagðist á síðustu sex mánuðum hafa verið spurð í hverju landi sem hún hefði komið til hverjar afleiðingar úrsagnar úr ESB yrðu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×