Íslenski boltinn

Gott að tapa leiknum í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir og félagar í Stjörnunni unnu Meistarakeppni kvenna í fyrra.
Harpa Þorsteinsdóttir og félagar í Stjörnunni unnu Meistarakeppni kvenna í fyrra. Vísir/Stefán
Það styttist í það að Pepsi-deild kvenna fari af stað og í kvöld fer fram lokaleikur undirbúningstímabilsins þegar Íslands- og bikarmeistararnir mætast í Meistarakeppni kvenna.

Leikur Íslandsmeistara Breiðabliks og bikarmeistara Stjörnunnar hefst klukkan 19.15 á  Samsung vellinum í Garðabæ og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Liðin hafa orðið Íslandsmeistarar undanfarin þrjú ár, Stjarnan 2013 og 2014 en Breiðablik í fyrra, og háðu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn síðasta sumar.

Blikastúlkur unnu á endanum sannfærandi sigur en Stjörnuliðið vann bikarinn annað árið í röð eftir að hafa meðal annars slegið Breiðablik út í sextán liða úrslitum keppninnar.

Það er síðan önnur saga hvort það sé gott að vinna Meistarakeppnina. Þetta er þriðja árið í röð sem Stjarnan og Breiðablik mætast í þessum árlega leik og undanfarin tvö ár hefur tapliðið haft betur í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Þetta nær reyndar einu ári lengra aftur því Stjarnan tapaði líka í Meistarakeppninni vorið 2013 en fagnaði Íslandsmeistaratitlinum um haustið.

Stjörnukonur hafa unnið þrjá Íslandsmeistaratitla á síðustu fimm árum en einu árin sem stóri titilinn hefur ekki komið í hús (2012 og 2015) voru einmitt árin sem þær komu inn í Íslandsmótið sem meistarar meistaranna.

Blikar hafa heldur ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn í síðustu fjögur skipti sem Blikakonur hafa unnið Meistarakeppnina fyrir mót eða árin 1998, 2003, 2006 og 2014.

Síðasta liðið til að vinna bæði Íslandsmeistaratitilinn og Meistarakeppnina voru Valskonur sumarið 2010 en þær voru þá að ná þeirri tvennu fjögur ár í röð. Valskonur unnu hinsvegar ekki titilinn þegar komu síðast inn í mótið sem meistarar meistaranna en það var sumarið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×