Daníel Guðni Guðmundsson er ekki bara nýráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Njarðvíkur í karlakörfuboltanum því hann hefur einnig tekið að sér annað þjálfarastarf á síðustu dögum.
Daníel Guðni kláraði sitt fyrsta meistaraflokks tímabil í vetur þegar hann stýrði kvennaliði Grindavíkur í bikarúrslitaleikinn og seinna alla leið í oddaleik um sæti í úrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna.
Daníel Guðni hætti með liðið þegar honum bauðst að taka við sínu uppeldisfélagi sem er Njarðvík. Daníel tekur við Njarðvíkurliðinu af Friðriki Inga Rúnarssyni.
Daníel Guðni tók einnig við þjálfun fimmtán ára landsliðs kvenna á dögunum. Daníel tekur þar við starfi Finns Jónssonar. Daníel fékk í raun stöðuhækkun því hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins.
Finnur Jónsson, sem var með Afreksbúðir stúlkna í fyrra og hefði haldið áfram með árganginn, þurfti að hætta í bili af persónulegum ástæðum, eins og segir í frétt á KKÍ-síðunni.
KKÍ ætlar að kynna aðstoðarþjálfara Daníels á næstunni en Daníel hefur valið fyrsta tólf manna hóp sinn en framundan er þátttaka á Copenhagen-Invitational mótinu helgina 17.til 19. júní.
Fyrsti landsliðshópur Daníels Guðna Guðmundssonar:
(U15 ára landslið stúlkna 2016)
Alexandra Eva Sverrisdóttir, Njarðvík
Anna Ingunn Svansdóttir, Keflavík
Ásta Júlía Grímsdóttir, KR
Eygló Kristín Óskarsdóttir, KR
Fanndís María Sverrisdóttir, Fjölni
Hrefna Ottósdóttir, Þór Akureyri
Jenný Lovísa Benediktsdóttir, Njarðvík
Ólöf Rún Óladóttir, Grindavík
Sigrún Björg Ólafsdóttir, Haukar
Sigurbjörg Eiríksdóttir, Keflavík
Stefanía Ósk Ólafsdóttir, Haukum
Vigdís María Þórhallsdóttir, Grindavík
Körfubolti