Viðskipti erlent

300 hagfræðingar: Engin efnahagsleg rök fyrir tilvist skattaskjóla

ingvar haraldsson skrifar
Hagfræðingarnir vilja uppræta tilvist skattaskjóla.
Hagfræðingarnir vilja uppræta tilvist skattaskjóla. vísir/getty
Engin efnahagsleg rök eru fyrir að leyfa áframhaldandi tilvist skattaskjóla samkvæmt bréfi sem 300 hagfræðingar hafa ritað til leiðtoga ríkja heims.

Að því er fram kemur á vef The Guardian er bréfið skrifað að undirlagi góðgerðasamtakanna Oxfam og meðal þeirra sem skrifa undir það er metsöluhöfundurinn Thomas Piketty og Angus Deaton, handhafi síðustu nóbelsverðlauna í hagfræði.

Hagfræðingarnir segja að ekki verði auðvelt að brjóta á bak aftur kerfi skattaskjóla þar sem valdamiklir aðilar hafi hagsmuni af óbreyttu kerfi. Þeir vilja að alþjóðlegum reglum verið komið á þar sem fyrirtæki þurfi að birta sundurliðaðar upplýsingar um skattskyld umsvif sín eftir löndum.

Einn hagfræðinganna, Ha-Joon Chang við Cambridge háskólann, segist, í samtali við BBC, hafa skrifað undir bréfið því skattaskjól hafi engan tilgang sem gagn sé af.

Bréfið er birt áður en 40 þjóðarleiðtogar funda á Bretlandi á fimmtudaginn um aðgerðir gegn spillingu.

Hagfræðingarnir segja Breta vera í einstakri stöðu þar sem ríflega þriðjungur sé staðsettur á svæðum sem heyri undir bresk yfirráð. 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×