KR-ingar voru bestir í allan vetur í karladeildinni þrátt fyrir að vera án meiddra landsliðsmanna í upphafi tímabil og að hafa misst annan landsliðsmann rétt fyrir úrslitakeppni. Sami kjarninn var enn til staðar og KR-liðið hefur nú unnið níu seríur í röð í úrslitakeppni, eða alls 27 af 35 leikjum sínum í úrslitakeppninni undanfarin þrjú ár.
Tíu titlum á eftir en nú jafnir
Karlalið KR var ekki bara að vinna þrjú ár í röð í röð í fyrsta sinn í fimm áratugi heldur voru Vesturbæingar einnig að jafna met ÍR-inga yfir flesta Íslandsmeistaratitla í karlaflokki.
KR og ÍR hafa nú unnið fimmtán Íslandsmeistaratitla hvort félag en þegar ÍR vann sinn fimmtánda titil vorið 1977 voru KR-ingar tíu titlum á eftir. Helgi Már Magnússon kvaddi sem tvöfaldur meistari en hann er einn af fjórum leikmönnum KR-liðsins í dag sem hafa unnið alla þrjá titlana en hinir eru fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson, Darri Hilmarsson og Pavel Ermolinskij.
Finnur Freyr Stefánsson hefur jafnframt unnið Íslandsmeistaratitilinn á fyrstu þremur árum sínum sem þjálfari sem enginn hefur náð síðan Gunnar Þorvarðarson afrekaði það með Njarðvíkurliðið á fyrstu þremur árum úrslitakeppninnar frá 1984 til 1986.

Enn á ný þurftu Snæfellskonur að yfirvinna brotthvarf lykilmanns því fyrirliðinn Hildur Sigurðardóttir lagði skóna á hilluna síðasta vor en árið áður hafði Snæfellsliðið misst tvo íslenska byrjunarliðsmenn. Ingi Þór gerði vel í að plata Bryndísi Guðmundsdóttur í Hólminn og við komu hennar fengu Hólmarar aftur meistaraglampann í augun.
Gunnhildur Gunnarsdóttir tók við leiðtogahlutverkinu af Hildi og enn á ný vann Snæfellsliðið í Kanahappadrættinu því Haiden Palmer var stórkostleg í allan vetur. Snæfellskonur voru ólíkt síðustu tveimur tímabilum ekki með heimavallarréttinn í lokaúrslitunum en þær unnu alla heimaleiki sína í úrslitakeppninni eins og síðustu þrjú ár og tryggðu sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með sigri í oddaleik á útivelli.
Sögulegt hjá þjálfaranum
Snæfellsstelpurnar hafa því enn ekki tapað í úrslitaeinvígi og þjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson varð sá fyrsti til að vinna úrslitakeppni kvenna þrjú ár í röð. Fyrir bæði liðin var þetta þó glæsilegra tímabil en árin á undan því að þessu sinni tryggðu þau sér einnig sigur í bikarkeppninni.
KR vann einnig deildina og var í fyrsta sinn að vinna deild, úrslitakeppni og bikarkeppni á sama tímabilinu. Snæfellskonur höfðu aldrei unnið bikarinn áður en nú eru Hólmarar handhafar tveggja stærstu bikaranna í kvennaflokki í fyrsta sinn.
Sérstakt körfuboltatímabil
Þetta var annars mjög sérstakt körfuboltatímabil sem hófst með miklu ævintýri karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Berlínu, innihélt glæstan sigur kvennalandsliðsins á Ungverjum í undankeppni Evrópumótsins og hefur þökk sé Körfuboltakvöldinu og Sportrásum 365 aldrei áður fengið aðra eins umfjöllun á ljósvakamiðlunum.