Ruðningskappinn Martin Castrogiovanni er í vondum málum hjá liði sínu Racing 92 eftir að hann sleppti Meistaradeildarleik til að fara á djammið með Zlatan Ibrahimovic og félögum í Paris Saint-Germain í Las Vegas.
Þessi 34 ára gamli ítalski landsliðsmaður er búinn að vera einn sá besti í sportinu undanfarin ár, en hann sleppti leik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gegn enska liðinu Leicester Tigers og sagði yfirmönnum sínum að hann þyrfti að sinna fjölskyldumálum.
Það virtist hann ekki þurfa að gera því Castrogiovanni náðist á mynd með Zlatan Ibrahimovic í Las Vegas þar sem sænski knattspyrnumaðurinn var ásamt liðsfélögum sínum í skemmtiferð.
Racing 92 leysti Castrogiovanni tímabundið frá störfum en það íhugar nú málsókn gegn leikmanninum sem átti að vera heima hjá sér í Argentínu að sinna fjölskyldunni en ekki á tjúttinu. Hann er Argentínumaður með ítalskt ríkisfang og hefur spilað fyrir landslið Ítalíu undanfarin fjórtán ár.
Þrátt fyrir að vera án Castrogiovanni vann Racing leikinn, 19-16, og mætir Saracens í úrslitum Meistaradeildarinnar 14. maí í Lyon. Það á svo eftir að koma í ljós hvort Castrogiovanni spili fleiri leiki fyrir Racing 92.
Sleppti Meistaradeildarleik til að tjútta með Zlatan í Vegas og var settur í straff
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið



Baðst afsökunar á tæklingunni í Garðabænum
Íslenski boltinn




Liverpool tilkynnir um risasamning við Adidas
Enski boltinn


