Íslenski boltinn

Blikastelpur unnu Evrópumeistarana 5-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lið Breiðabliks eftir stórsigurinn í dag.
Lið Breiðabliks eftir stórsigurinn í dag. Mynd/Halldór Arnarsson
Kvennalið Breiðabliks er heldur betur að gera góða hluti í æfingaferð sinni til Þýskalands en þar eru Íslandsmeistararnir að undirbúa sig fyrir átökin í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Breiðablik mætti Evrópumeisturum í FFC Frankfurt í æfingaleik í hádeginu en fyrir fjórum dögum sló þýska liðið Söru Björk Gunnarsdóttir og félaga hennar í Rosengard út í Vítaspyrnukeppni í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Frankfurt-liðið stillti upp sterku liði á móti Blikum en meðal annarra leikmanna hjá þeim voru þýsku landsliðskonuarnar Dzsenifer Marozsan og Simone Laudehr. Auk þeirra spilaði Kanadíski landsliðsmaðurinn Sophie Schmidt og hin ástralska Emily van Egmond leikinn ásamt fleiri lykilmönnum.

Blikastelpurnar voru í miklu stuði og unnu leikinn 5-0.  Rakel Hönnudóttir og Ester Rós Arnardóttir komu Kópavogsliðinu í 2-0 í fyrri hálfleiknum og Fanndís Friðriksdóttir skoraði síðan þrennu í þeim síðari. Fanndís Friðriksdóttir var einmitt markahæsti leikmaðurinn í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili.

Frankfurt átti margar harðar og álitlegar tilraunir að marki Blika en Blikavörnin og Sonný Lára Þráinsdóttir markmaður sáu til þess að þær urðu allar árangurslausar.

Blikakonur fengu aðeins á sig fjögur mörk í átján leikjum í Pepsi-deild kvenna síðasta sumar þar sem Sonný Lára hélt marki sínu meðal annars hreinu í tólf leikjum í röð.

Þessi leikur í dag var liður í æfingaferð Blikanna en áður höfðu þær unnið B-lið Frankfurt með tveimur mörkum gegn einu.

Blikakonur eru líklega til afreka í sumar ef marka má þessi frábæru úrslit en það stefnir í spennandi sumar í kvennafótboltanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×