Íslenski boltinn

Dóra María snéri aftur eftir átján mánuði og skoraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir.
Dóra María Lárusdóttir. Vísir/Daníel
Knattspyrnukonan Dóra María Lárusdóttir spilaði sinn fyrsta mótsleik með Val í rétt tæpa átján mánuði þegar liðið vann 3-0 sigur á Aftureldingu í Lengjubikarnum á Valsvellinum.

Dóra María fór í pásu eftir 2014 tímabilið þá ekki orðin þrítug en hún hefur nú tekið skóna aftur af hillunni sem er mikið gleðiefni fyrir bæði Val og íslenskan fótbolta.

Dóra María Lárusdóttir var í byrjunarliði Vals í leiknum og klæddist að sjálfsögðu treyju númer tíu eins og hún er vön.

Dóra María kom Valsliðinu í 2-0 á 55. mínútu leiksins en hún spilaði allar 90 mínúturnar í leiknum. Það er hægt að sjá skýrslu leiksins hér.

Vesna Elísa Smiljkovic og Rúna Sif Stefánsdóttir skoruðu hin mörk Valsliðsins í leiknum. Margrét Lára Viðarsdóttir lék ekki með Valsliðinu í þessum leik en hún hefur ekki spilað síðan hún kom heim af Algarve-bikarnum.

Dóra María Lárusdóttir er yngsti Íslendingurinn sem hefur náð að spila hundrað A-landsleiki en hún lék sinn 108. og síðasta landsleik (til þessa) á móti Serbíu 17. september 2014.

Dóra María hefur spilað 189 leiki og skorað 83 mörk fyrir Val í efstu deild. Hún hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari með Val og fimm sinnum unnið bikarinn.

Dóra María spilaði 76 leiki (af 82 mögulegum) og skoraði 43 mörk þegar Valskonur unnu Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð frá 2006 til 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×