Fótbolti

Eiður: Verður að svara þegar maður eins og Ole Gunnar hringir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen var stóískur en kátur þegar hann spjallaði við fréttakonu norska úrvalsdeildarliðsins Molde í dag, en Eiður Smári skrifaði undir eins ára samning við Molde fyrr í dag.

Eiður Smári lék síðast í Kína en verður nú undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi leikmanns Manchester United, hjá einu besta og stærsta liði Noregs.

„Mér líður frábærlega. Ég hef ekkert spilað síðan kínversku deildinni lauk þannig ég er spenntur fyrir því að byrja og komast út á völl. Ég er ánægður að þetta sé frágengið,“ segir Eiður Smári, en af hverju Molde?

„Molde sýndi mikinn áhuga. Ég þekki þjálfarann frá dögum mínum á Englandi. Þegar maður eins og Ole Gunnar Solskjær biður mann um að ræða við sig þarf maður að minnsta kosti að svara.“

„Við ræddum saman um möguleikana. Hann sagði mér frá sinni sýn og ég sagði hvernig ég myndi vilja sjá þetta. Það var auðvelt að komast að samkomulagi,“ segir Eiður.

Mikið er af ungum leikmönnum í liði Molde sem Eiður Smári getur miðlað af sinni gríðarlega miklu reynslu til.

„Ég ætla að reyna að hafa jákvæð áhrif á liðið bæði innan sem utan vallar og setja gott fordæmi. Ég má samt ekki gleyma að ég er bara einn af leikmönnum liðsins þannig við verðum að standa saman til að ná árangri,“ segir Eiður Smári.

„Ég vil hjálpa liðinu eins og ég get og vonandi vinna Noregsmeistaratitilinn.“

Allt viðtalið við Eið Smára má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×