Viðskipti erlent

Markaðir erlendis að taka við sér á ný

Sæunn Gísladóttir skrifar
Lifnað hefur yfir alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í vikunni.
Lifnað hefur yfir alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í vikunni. NordicPhotos/Getty
Í vikunni fór gengi hlutabréfa á Evrópu-, Asíu- og Norður-Ameríkumarkaði að styrkjast á ný. Í síðustu viku hafði bandaríski hlutabréfamarkaðurinn ekki verið lægri í tvö ár og gengi hlutabréfa í Evrópu hafði ekki verið lægra síðan í september 2013.

Ein ástæða þess að hlutabréf hafa verið að hækka er hærra olíuverð. Um eftirmiðdaginn í gær hafði Brent Crude hráolía hækkað um rúmlega sex prósent og um rúmlega þrettán prósent frá því á fimmtudaginn í síðustu viku.

Frá lokun markaða á föstudaginn fram að eftirmiðdegi á miðvikudaginn hækkaði FTSE 100 um 4,5 prósent, úr 5.706,33 stigum í 5963,28 stig. Nikkei 225 í Japan hækkaði um tæplega sex prósent, úr 14.943,12 stigum í 15.836,36 stig. Nikkei lækkaði þó um 1,4 prósent á miðvikudag í kjölfar styrkingar jensins, en hafði rokið upp um sjö prósent á mánudaginn. Shanghai-vísitalan hækkaði um rúmlega sex prósent í vikunni og lokaði í 2.867,34 stigum. Vísitalan hefur þó lækkað um 19 prósent á árinu.

Í Þýskalandi hækkuðu bréf Deutsche Bank um tæplega fimm prósent á tímabilinu en DAX-vísitalan hækkaði um fjögur prósent, úr 8.967,51 í 9.322,65.

Hlutabréfamarkaðir á Wall Street hækkuðu bæði á mánudag og þriðjudag um það mesta á tveimur dögum síðan í ágúst á síðasta ári. S&P 500 vísitalan hafði hækkað um 1,4 prósent um eftirmiðdaginn í gær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×