Leikjavísir

Góður leikur sem ætti að vera frábær

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn XCom beita öllum brögðum til að hafa betur gegn Advent.
Hermenn XCom beita öllum brögðum til að hafa betur gegn Advent.
Geimverur hafa tekið völdin á jörðinni. Meirihluti íbúa virðast heilaþvegnir en fámennur hópar víðs vegar um heiminn berjast gegn geimverunum sem kallast Advent. XCom 2 setur spilara í spor andspyrnunnar sem berst gegn mun sterkari andstæðingi. Leikurinn er mjög erfiður og má fátt klikka í byrjun.

XCom 2 er mjög góður leikur í grunninn. Enemy Unkown er með betri leikjum, sem undirritaður hefur spilað og XCom 2 bætir við EU að mörgu leyti, en eins og staðan er í dag, er hann ekki frábær. Hann ætti að vera frábær.

Að mörgu leyti byggir XCom 2 á velgengni forvera síns og er ekki hægt að segja annað en að leikurinn sé góður. Tæknilegir gallar koma þó hins vegar í veg fyrir að XCom 2 sé frábær. Ljósið í myrkrinu er þó að Firaxis munu að öllum líkindum gefa út plástra fyrir leikinn sem og aukapakka.

Saga leiksins gerist á þann veg að tuttugu ár eru liðin frá innrásinni og varnarbaráttan sem einkenndi XCom Enemy Unknown tapaðist og geimverurnar unnu. Nú er andspyrnunnar að standa í hárinu á geimverunum og reynist nauðsynlegt að endurreisa XCom verkefnið.

Hann skiptist í tvo hluta eins og fyrri leikurinn, þar sem annar hlutinn fer í að rannsaka og byggja ný vopn, safna birgðum og upplýsingum og fleira á stóru hnattkorti. Hinn hluti leiksins snýr að bardögum.

Undirritaður byrjaði leikinn vongóður. Ég hafði margsinnis spilað Enemy Unknown og hafði sérstaklega hitað upp fyrir XCom 2. Ég ætti eftir að eiga auðvelt með að fara í gegnum þennan leik. Eftir nokkrar klukkustundir slökkti ég hins vegar á leiknum þegar nánast allir hermenn mínir voru dauðir, særðir eða í ruglinu sálfræðilega (Shellshocked).

Næsta dag prófaði ég aftur, kyngdi stoltinu og lækkaði erfiðleikastigið, svo ég kæmist nú eitthvað áfram í leiknum. Byrjunin skiptir miklu máli og er gríðarlega mikið sem gengur á fyrstu klukkutíma leiksins.

Í bardögum þarf að klára flest borð innan ákveðins og þröngs tímaramma, sem gefur manni ekki mikið svigrúm í byrjun leiks til að beita þeirri taktík sem að XCom á að byggja á. Margsinnis reyndist nauðsynlegt að spretta með hermennina eins og þeir komust og vona að þeir yrðu ekki skotnir. Það lagast þó að miklu leyti seinna í leiknum þegar hermennirnir eru komnir með betri vopn og brynjur.

Leiðinleg bið

Í hverjum mánuði í leiknum fær spilari ákveðið magn af birgðum eftir því hve stórt svæði heimsins hann hefur opnað. Þær birgðir þarf þó að sækja á heimskortinu. Leiðinlega mikill tími fer í að horfa á geimskip XCom taka á loft, fljúga höktandi um kortið og lenda á nýjum stað til þess  að láta klukkuna ganga áfram á meðan til dæmis birgðum er safnað og tekur það þrjá daga.

Oftar en ekki er þó ekki hægt að klára það í einni tilraun, þar sem eitthvað kemur upp á. Þá þarf að horfa aftur á skipið taka á loft, fljúga höktandi um kortið og lenda. Fara í gegnum eitt borð og fljúga aftur til baka til að sækja birgðirnar og vona að það gangi upp án þess að nauðsynlegt reynist að taka aftur á loft.

Bardagar leiksins eru „turn based“ þar sem spilarar raða upp köllum sínum og svo gerir tölvan. Stundum líður óeðlilega mikill tími á meðan tölvan gerir og maður sér jafnvel ekki hvað hún gerði eða hvort geimverurnar hittu hermennina.

Nú þegar hafa þó verið gerðir moddar, sem auðvelt er að nálgast, en þeir laga-ish marga af göllum leiksins.

Hægt er að breyta útliti hermanna mun meira en áður sem er skemmtilegt og auðveldara verður að þekkja þá í hita leiksins. Þeir geta verið með tattú og jafnvel vindil.

Þrátt fyrir ófáa galla er XCom góður og skemmtilegur leikur og ég skemmti mér vel yfir honum. Erfiðleikastig hans gerir hann meira spennandi en forvera sinn og tilfinningin er frábær þegar borðin heppnast fullkomlega. Eins fylgir því mikil reiði þegar geimverurnar sigra og tekst jafnvel að drepa uppáhalds hermanninn þinn.

Gallarnir verða líklegast lagaðir og það sem meira er, þá hefur Firaxis gert svokölluðum moddurum auðveldara um vik. XCom 2 er, eins og áður segir, góður leikur. Hann verður líklega frábær á endanum.


Tengdar fréttir

Biðin eftir góðum handboltaleik heldur áfram

Framleiðendurnir Handball 16 fá þó aukastig fyrir viðleitnina, en markaðurinn fyrir handboltaleiki er væntanlega ekki beysinn. Íslenskir leikmenn eru á sínum stað.

Haldið í hefðir Homeworld

Homeworld: Deserts of Kharak, tekst að vera nýstárlegur og í senn halda í uppruna sinn.

Eins og endalaus hasarmynd

Það er nánast ómögulegt að taka Just Cause 3 alvarlega en það er svo sem ekki ætlast til þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×