Bíó og sjónvarp

Rússar safna gulli fyrir Óskarsstyttu handa DiCaprio

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hópur rússneskra aðdáenda leikarans safnar nú gulli og silfri sem þeir ætla að bræða saman í Óskarsstyttu handa leikaranum.
Hópur rússneskra aðdáenda leikarans safnar nú gulli og silfri sem þeir ætla að bræða saman í Óskarsstyttu handa leikaranum. Vísir/Getty
Hópur rússneskra aðdáenda stórleikarans Leonardio DiCaprio safnar nú saman gulli og silfri til þess að bræða í eina Óskarsverðlaunastyttu handa leikaranum.

Aðdáendaskarinn, sem býr í norðaustur-Rússlandi, nánar tiltekið í héraðinu Yakutia, ætlar sér að bræða eðalmálmana saman í styttu enda líði þeim illa yfir því að DiCaprio hafi aldrei unnið Óskarinn.

Tatyana Yegorova stendur að baki söfnuninni og segir hún að hugmyndin sé gömul en eftir að hafa horft á nýjustu mynd DiCaprio, The Revenant, hafi hún og aðrir ákveðið að nú væri kominn tími á að Leo hlyti Óskarinn.

Yegorova segir að um 100 manns hafi gefið í söfnunina hingað til. Styttan verður þó ekki alveg eins og Óskarsstyttan fræga, Yakutia-útgáfan mun horfa til himins. Forsprakki hópsins er þó ekki alveg viss um hvernig koma skuli styttunni til skila enda er ansi langt frá Yakutia til Hollywood.

Mögulega þarf DiCaprio þó ekki á styttunni að halda, hann er jú tilnefndur sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í The Revenant. Er þetta í sjötta sinn sem hann hefur verið tilnefndur til verðlaunanna eftirsóttu en aldrei hefur hann hlotið þau. Takist það ekki í þetta sinn getur hann þó í það minnsta huggað sig við að fá styttuna fá æstum aðdáendum sínum í Rússlandi.


Tengdar fréttir

Vill leika Pútín

Leonardo DiCaprio segir að Rússlandsforseti heilli sig. Hann væri þó einnig til í að leika Lenín eða Raspútín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×