Erlent

Danska flótta­manna­frum­varpið: Fá 92 aura í vasa­pening á dag

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra segist ánægður með frumvarpið og segir það "það misskildasta í sögu Danmerkur“.
Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra segist ánægður með frumvarpið og segir það "það misskildasta í sögu Danmerkur“. Vísir/AFP
Danska þingið mun í dag greiða atkvæði um hvort frumvarp sem heimilar meðal annars dönskum yfirvöldum að gera verðmætar eignir flóttamanna upptækar, verði að lögum.

Frumvarpið hefur sætt mikilli gagnrýni, bæði í Danmörku og víðar, allt frá því að það var kynnt til sögunnar fyrr í mánuðinum.

Fulltrúar danskra yfirvalda fullyrða að frumvarpið setji flóttamenn í sömu stöðu og atvinnulausir Danir, sem verði að selja eignir til að eiga rétt á bótum.

Breiður stuðningur

Í frétt BBC kemur fram að fullvíst sé talið að frumvarpið verði að lögum, þar sem mikill meirihluti þingmanna kveðst styðja það.

Einnig verða greidd atkvæði um aðra umdeilda tillögu sem felur í sér að tíminn fyrir fjölskyldur flóttamanna til að sameinast í nýju landi verði lengdur. Er tillagan ætluð til að draga úr áhuga flóttafólks að koma til Danmerkur.

Danska innanríkisráðuneytið reiknar með að um 20 þúsund hælisleitendur komi til landsins á þessu ári, borið saman við 15 þúsund á því síðasta.

Dönsk stjórnvöld segja breytingarnar nauðsynlegar til að stemma stigu við straum flóttafólks til landsins, þrátt fyrir að landamæraeftirlit hafi nýlega verið hert.

Engar eignir með „tilfinningalegt gildi“

Margir hafa líkt frumvarpinu við þegar eignir gyðinga voru gerðar upptækar á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála, segir að engar eignir sem sagðar eru hafa „tilfinningalegt gildi“ verði gerðar upptækar. Lögin munu ná til eigna sem metrar eru á meira en 10 þúsund danskar krónur, eða um 190 þúsund íslenskar. Upphæðin var hækkuð úr þrjú þúsund dönskum í kjölfar mótmæla.

Lars Løkke Rasmussen segist ánægður með frumvarpið og segir það „það misskildasta í sögu Danmerkur“.

Í frétt DR kemur fram að samkvæmt frumvarpinu muni flóttamenn fá 92 danska aura, um 17 íslenskar krónur, í vasapening á dag. Upphæðin verður þar með lækkuð úr níu krónum og 15 aurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×