Samsærið 58 Stefán Pálsson skrifar 17. janúar 2016 07:00 Det klassiska laget. Landslið Svía í úrslitaleiknum 1958. Í næsta mánuði verður nýr forseti FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, kjörinn á aukafundi í Zürich. Fimm frambjóðendur takast á um embættið, en í fljótu bragði virðist enginn þeirra sérstaklega líklegur til að endurreisa traust þessa öflugasta íþróttasambands í heimi. Um árabil hafa dunið á forystumönnum FIFA ásakanir um mútuþægni, frændhygli og samsæri – ekki hvað síst í tengslum við ákvarðanir um hvar halda skuli stórmót í fótbolta. Sú ákvörðun að halda heimsmeistaramótið í Katar eftir sex ár má heita óskiljanleg nema að ráðamenn litla arabaríkisins hafi hreinlega keypt hnossið. En undirferlið í tengslum við Katar-keppnina 2022 bliknar þó í samanburði við samsærið mikla, HM í fótbolta 1958. Sögubækur segja okkur að sextán þjóðir hafi mætt til leiks á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð sem stóð frá 8. til 29. júní árið 1958. Knattspyrnan var enn ekki orðin sú alheimsíþrótt sem síðar varð. Fjórðungur keppnisliðanna kom frá Bretlandseyjum, Austur-Evrópa og Vestur-Evrópa áttu hvor um sig fjögur lið og síðustu fjögur komu frá Rómönsku Ameríku. Alþjóðaknattspyrnusambandið hafði af rausn sinni ætlað Afríku, Asíu og Ástralíu að deila einu sæti, en öll lið sem áttu að mæta Ísrael í forkeppninni gáfu leiki sína af pólitískum ástæðum. Að lokum stefndi í að Ísraelar kæmust til Svíþjóðar án keppni og varð því úr að lið þeirra lék aukaleiki við Wales. Walesverjar urðu því að lokum „fulltrúar“ Afríku og Asíu í úrslitakeppninni. Ekki allt sem sýnist?Saga til næsta bæjarFrakkar höfnuðu í þriðja sæti á mótinu og framherji þeirra, Marokkómaðurinn Just Fontaine, setti glæsilegt markamet sem líklega verður aldrei slegið: þrettán mörk í sex leikjum. Enn minnisstæðari var þó framganga brasilíska liðsins sem varð heimsmeistari í fyrsta sinn með hinn sautján ára gamla Pelé í broddi fylkingar. Nafn Pelés varð þegar á vörum allrar heimsbyggðarinnar, því keppninni í Svíþjóð var sjónvarpað miklu víðar en nokkrum íþróttaviðburði fram að því. Nema – í raun gerðist ekkert af þessu. Árið 2002 sýndi sænska ríkissjónvarpið heimildarmyndina „Konspirasjon 58“ sem hafði að geyma sláandi uppljóstranir. Heimsmeistarakeppnin í Svíþjóð var aldrei haldin. Þess í stað var um að ræða stórbrotið samsæri FIFA, sænskra stjórnvalda og bandarísku leyniþjónustunnar. CIA vildi kanna hvernig unnt væri að skapa blekkingavef með hjálp sjónvarpstækni og fjölmiðla. Markmiðið var að beita fjölmiðlum til að sannfæra heilu þjóðirnar um að uppspunnir atburðir væru raunverulegir. Þegar fólk hefði lesið sömu frásagnirnar og séð sömu sjónvarpsupptökurnar nógu oft myndi það að lokum ímynda sér að það hefði sjálft verið viðstatt. Aðalviðmælandinn í myndinni var fræðimaðurinn Bror Jacques de Wærn, sem varið hefur áratugum í að kanna öll möguleg gögn um keppnina 1958. Það eru einkum rannsóknir hans á myndefni sem leitt hafa í ljós gloppur í hinni opinberu sögu. Myndina sjálfa má finna í mörgum útgáfum, ýmist með sænskum eða enskum texta á YouTube og margvíslegt ítarefni má skoða á vefsíðunni www.konspiration58.com, sem haldið er úti af KSP58 sem eru samtök fólks sem reynir að koma sannleikanum fram í dagsljósið. Auk þess að ganga í félagsskapinn gefst áhugasömum þar kostur á að kaupa hvers kyns varning merktan honum, svo sem dómaratreyju í anda sjötta áratugarins. Atriðin sem de Wærn bendir á eru bæði stór og smá. Þannig sést greinilega að fótabúnaður leikmanna er skringilegur og öðruvísi en tíðkaðist almennt hjá knattspyrnumönnum í lok sjötta áratugarins. Látbragð og líkamstjáning segja líka sína sögu. Þannig sést markvörður vestur-þýska landsliðsins skælbrosa þegar sænskur framherji skorar fram hjá honum í undanúrslitaleiknum. Hver myndi bregðast þannig við í alvöru kappleik? Gautaborg eða Hollywood?Veigameiri vísbendingar felast þó í nákvæmri rannsókn á umhverfi og lýsingu á myndunum. Með því að rannsaka nákvæmlega lengd á skuggum er augljóst að myndirnar geta ekki verið teknar í Svíþjóð í júnímánuði, heldur hlýtur tökustaðurinn að vera mun sunnar á hnettinum. Og ef rýnt er í myndir sem sagðar eru teknar á Ullevi-vellinum í Gautaborg má greina í fjarska háhýsi með einkennandi turna. Enga slíka turna er að finna í borginni. Hins vegar hefur de Wærn grafið upp myndir af keimlíkum mannvirkjum: í Hollywood í Bandaríkjunum. Þegar hér er komið sögu eru varfærnir lesendur Fréttablaðsins vonandi orðnir tortryggnir og spyrja sig hvaða vitleysa sé hér á ferðinni? Og auðvitað er um hreinan uppspuna að ræða. Konspiration 58 var skálduð mynd af þeirri gerð sem enskumælandi kalla mockumentary og mætti þýða sem háðmildamynd. Sænskir sjónvarpsáhorfendur höfðu hins vegar enga hugmynd um það þegar myndin hófst og það var ekki fyrr en að henni lokinni að hið rétta kom í ljós, en þá hafði drjúgur hluti áhorfenda slökkt á tækjunum eða skipt um stöð. Af umræðum á athugasemdakerfum vefmiðla og könnunum sem gerðar voru að sýningu lokinni kom í ljós að drjúgur hluti áhorfenda taldi að de Wærn setti ásakanir sínar fram í fullri alvöru. Margir komust ekki að hinu sanna fyrr en þeir mættu í vinnuna daginn eftir og fóru að ræða uppljóstranirnar við vinnufélagana. Aðrir brugðust illa við og sendu leikstjóranum líflátshótanir fyrir að reyna að gera lítið úr einhverjum merkasta atburði sænskrar íþróttasögu. Loks var lítill hluti fólks sem trúði sögunni eins og nýju neti. Sá hópur olli leikstjóranum mestri skelfingu. Þunnir þræðirRaunar er með ólíkindum að nokkur hafi látið gabbast. Drjúgur hluti myndarinnar fer í viðtöl við gamlar kempur úr silfurliði Svía á heimsmeistaramótinu, sem gefa engin tilefni til að ætla að þeir séu þátttakendur í viðamiklu samsæri. Sýnt var viðtal við meintan sálfræðing sem útskýrði vænisýki og samsæriskenningasmíði og sömuleiðis voru kynntir til sögunnar skringilegir áhangendur de Wærns sem hikuðu ekki við að grípa til ofbeldis til að koma málstaðnum á framfæri. Jafnframt voru sviðsett mótmæli við bókabúð í Stokkhólmi, þar sem reiðir stuðningsmenn sænska fótboltalandsliðsins gerðu aðsúg að de Wærn þar sem hann bjó sig undir að árita bók sína um HM-samsærið mikla. Kveikjan að Konspiration 58 var sú að kvikmyndagerðarmaðurinn Johan Löfstedt ræddi við félaga sinn um áróðursbrögð í myndum sem ætlað er að afsanna að helförin hafi átt sér stað. Þeir létu hugann reika um hvernig hafna mætti því að sögulegir atburðir í sænskri sögu hefðu gerst, svo sem Ólympíuleikarnir í Stokkhólmi 1912 eða einhver Eurovision-söngkeppnin. Fljótlega skaut þó HM 1958 upp kollinum og grunnurinn að handritinu varð að mestu til á einni kvöldstund. Konspiration 58 er því öðrum þræði kennslumynd um hvernig hægt er að ljá jafnvel fráleitustu tilgátum trúverðugleika með réttri notkun myndefnis. Samsæriskenningasmiðurinn de Wærn er sannfærandi í fasi og talar hægt en af festu. Með því að beita réttri lýsingu og dramatískri tónlist þegar myndavélinni er beint að einhverju smáatriði á ljósmynd eða sjónvarpsmyndskeiði finnst áhorfandanum hann verða vitni að miklum uppljóstrunum. Með einföldum brellum er hægðarleikur að sá fræjum efasemda, þótt kenningin sé fjarstæðukennd og enginn hörgull sé á vitnum um hið gagnstæða. Myndin er fyrir löngu orðin kennsluefni í sænskum skólum, til að minna nemendur á að beita gagnrýninni hugsun þegar kemur að kvikmyndum eða upplýsingum á netinu. Áhugafólk um íþróttasögu getur líka notið hennar, vegna viðtalanna við gömlu sænsku landsliðsmennina, sem geta þó seint talist trúverðugir þátttakendur í leynilegri CIA-áætlun. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Fleiri fréttir Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Sjá meira
Í næsta mánuði verður nýr forseti FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, kjörinn á aukafundi í Zürich. Fimm frambjóðendur takast á um embættið, en í fljótu bragði virðist enginn þeirra sérstaklega líklegur til að endurreisa traust þessa öflugasta íþróttasambands í heimi. Um árabil hafa dunið á forystumönnum FIFA ásakanir um mútuþægni, frændhygli og samsæri – ekki hvað síst í tengslum við ákvarðanir um hvar halda skuli stórmót í fótbolta. Sú ákvörðun að halda heimsmeistaramótið í Katar eftir sex ár má heita óskiljanleg nema að ráðamenn litla arabaríkisins hafi hreinlega keypt hnossið. En undirferlið í tengslum við Katar-keppnina 2022 bliknar þó í samanburði við samsærið mikla, HM í fótbolta 1958. Sögubækur segja okkur að sextán þjóðir hafi mætt til leiks á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð sem stóð frá 8. til 29. júní árið 1958. Knattspyrnan var enn ekki orðin sú alheimsíþrótt sem síðar varð. Fjórðungur keppnisliðanna kom frá Bretlandseyjum, Austur-Evrópa og Vestur-Evrópa áttu hvor um sig fjögur lið og síðustu fjögur komu frá Rómönsku Ameríku. Alþjóðaknattspyrnusambandið hafði af rausn sinni ætlað Afríku, Asíu og Ástralíu að deila einu sæti, en öll lið sem áttu að mæta Ísrael í forkeppninni gáfu leiki sína af pólitískum ástæðum. Að lokum stefndi í að Ísraelar kæmust til Svíþjóðar án keppni og varð því úr að lið þeirra lék aukaleiki við Wales. Walesverjar urðu því að lokum „fulltrúar“ Afríku og Asíu í úrslitakeppninni. Ekki allt sem sýnist?Saga til næsta bæjarFrakkar höfnuðu í þriðja sæti á mótinu og framherji þeirra, Marokkómaðurinn Just Fontaine, setti glæsilegt markamet sem líklega verður aldrei slegið: þrettán mörk í sex leikjum. Enn minnisstæðari var þó framganga brasilíska liðsins sem varð heimsmeistari í fyrsta sinn með hinn sautján ára gamla Pelé í broddi fylkingar. Nafn Pelés varð þegar á vörum allrar heimsbyggðarinnar, því keppninni í Svíþjóð var sjónvarpað miklu víðar en nokkrum íþróttaviðburði fram að því. Nema – í raun gerðist ekkert af þessu. Árið 2002 sýndi sænska ríkissjónvarpið heimildarmyndina „Konspirasjon 58“ sem hafði að geyma sláandi uppljóstranir. Heimsmeistarakeppnin í Svíþjóð var aldrei haldin. Þess í stað var um að ræða stórbrotið samsæri FIFA, sænskra stjórnvalda og bandarísku leyniþjónustunnar. CIA vildi kanna hvernig unnt væri að skapa blekkingavef með hjálp sjónvarpstækni og fjölmiðla. Markmiðið var að beita fjölmiðlum til að sannfæra heilu þjóðirnar um að uppspunnir atburðir væru raunverulegir. Þegar fólk hefði lesið sömu frásagnirnar og séð sömu sjónvarpsupptökurnar nógu oft myndi það að lokum ímynda sér að það hefði sjálft verið viðstatt. Aðalviðmælandinn í myndinni var fræðimaðurinn Bror Jacques de Wærn, sem varið hefur áratugum í að kanna öll möguleg gögn um keppnina 1958. Það eru einkum rannsóknir hans á myndefni sem leitt hafa í ljós gloppur í hinni opinberu sögu. Myndina sjálfa má finna í mörgum útgáfum, ýmist með sænskum eða enskum texta á YouTube og margvíslegt ítarefni má skoða á vefsíðunni www.konspiration58.com, sem haldið er úti af KSP58 sem eru samtök fólks sem reynir að koma sannleikanum fram í dagsljósið. Auk þess að ganga í félagsskapinn gefst áhugasömum þar kostur á að kaupa hvers kyns varning merktan honum, svo sem dómaratreyju í anda sjötta áratugarins. Atriðin sem de Wærn bendir á eru bæði stór og smá. Þannig sést greinilega að fótabúnaður leikmanna er skringilegur og öðruvísi en tíðkaðist almennt hjá knattspyrnumönnum í lok sjötta áratugarins. Látbragð og líkamstjáning segja líka sína sögu. Þannig sést markvörður vestur-þýska landsliðsins skælbrosa þegar sænskur framherji skorar fram hjá honum í undanúrslitaleiknum. Hver myndi bregðast þannig við í alvöru kappleik? Gautaborg eða Hollywood?Veigameiri vísbendingar felast þó í nákvæmri rannsókn á umhverfi og lýsingu á myndunum. Með því að rannsaka nákvæmlega lengd á skuggum er augljóst að myndirnar geta ekki verið teknar í Svíþjóð í júnímánuði, heldur hlýtur tökustaðurinn að vera mun sunnar á hnettinum. Og ef rýnt er í myndir sem sagðar eru teknar á Ullevi-vellinum í Gautaborg má greina í fjarska háhýsi með einkennandi turna. Enga slíka turna er að finna í borginni. Hins vegar hefur de Wærn grafið upp myndir af keimlíkum mannvirkjum: í Hollywood í Bandaríkjunum. Þegar hér er komið sögu eru varfærnir lesendur Fréttablaðsins vonandi orðnir tortryggnir og spyrja sig hvaða vitleysa sé hér á ferðinni? Og auðvitað er um hreinan uppspuna að ræða. Konspiration 58 var skálduð mynd af þeirri gerð sem enskumælandi kalla mockumentary og mætti þýða sem háðmildamynd. Sænskir sjónvarpsáhorfendur höfðu hins vegar enga hugmynd um það þegar myndin hófst og það var ekki fyrr en að henni lokinni að hið rétta kom í ljós, en þá hafði drjúgur hluti áhorfenda slökkt á tækjunum eða skipt um stöð. Af umræðum á athugasemdakerfum vefmiðla og könnunum sem gerðar voru að sýningu lokinni kom í ljós að drjúgur hluti áhorfenda taldi að de Wærn setti ásakanir sínar fram í fullri alvöru. Margir komust ekki að hinu sanna fyrr en þeir mættu í vinnuna daginn eftir og fóru að ræða uppljóstranirnar við vinnufélagana. Aðrir brugðust illa við og sendu leikstjóranum líflátshótanir fyrir að reyna að gera lítið úr einhverjum merkasta atburði sænskrar íþróttasögu. Loks var lítill hluti fólks sem trúði sögunni eins og nýju neti. Sá hópur olli leikstjóranum mestri skelfingu. Þunnir þræðirRaunar er með ólíkindum að nokkur hafi látið gabbast. Drjúgur hluti myndarinnar fer í viðtöl við gamlar kempur úr silfurliði Svía á heimsmeistaramótinu, sem gefa engin tilefni til að ætla að þeir séu þátttakendur í viðamiklu samsæri. Sýnt var viðtal við meintan sálfræðing sem útskýrði vænisýki og samsæriskenningasmíði og sömuleiðis voru kynntir til sögunnar skringilegir áhangendur de Wærns sem hikuðu ekki við að grípa til ofbeldis til að koma málstaðnum á framfæri. Jafnframt voru sviðsett mótmæli við bókabúð í Stokkhólmi, þar sem reiðir stuðningsmenn sænska fótboltalandsliðsins gerðu aðsúg að de Wærn þar sem hann bjó sig undir að árita bók sína um HM-samsærið mikla. Kveikjan að Konspiration 58 var sú að kvikmyndagerðarmaðurinn Johan Löfstedt ræddi við félaga sinn um áróðursbrögð í myndum sem ætlað er að afsanna að helförin hafi átt sér stað. Þeir létu hugann reika um hvernig hafna mætti því að sögulegir atburðir í sænskri sögu hefðu gerst, svo sem Ólympíuleikarnir í Stokkhólmi 1912 eða einhver Eurovision-söngkeppnin. Fljótlega skaut þó HM 1958 upp kollinum og grunnurinn að handritinu varð að mestu til á einni kvöldstund. Konspiration 58 er því öðrum þræði kennslumynd um hvernig hægt er að ljá jafnvel fráleitustu tilgátum trúverðugleika með réttri notkun myndefnis. Samsæriskenningasmiðurinn de Wærn er sannfærandi í fasi og talar hægt en af festu. Með því að beita réttri lýsingu og dramatískri tónlist þegar myndavélinni er beint að einhverju smáatriði á ljósmynd eða sjónvarpsmyndskeiði finnst áhorfandanum hann verða vitni að miklum uppljóstrunum. Með einföldum brellum er hægðarleikur að sá fræjum efasemda, þótt kenningin sé fjarstæðukennd og enginn hörgull sé á vitnum um hið gagnstæða. Myndin er fyrir löngu orðin kennsluefni í sænskum skólum, til að minna nemendur á að beita gagnrýninni hugsun þegar kemur að kvikmyndum eða upplýsingum á netinu. Áhugafólk um íþróttasögu getur líka notið hennar, vegna viðtalanna við gömlu sænsku landsliðsmennina, sem geta þó seint talist trúverðugir þátttakendur í leynilegri CIA-áætlun.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Fleiri fréttir Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Sjá meira