Körfubolti

Njarðvík samdi við ÍR og fær Odd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oddur Rúnar Kristjánsson hefur staðið sig mjög vel í vetur.
Oddur Rúnar Kristjánsson hefur staðið sig mjög vel í vetur. Vísir/Vilhelm
Oddur Rúnar Kristjánsson, leikstjórnandi ÍR í Domino´s deild karla í körfubolta, mun klára tímabilið með Njarðvíkingum en þetta staðfestir Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur við karfan.is.

Oddur var í mjög stóru hlutverki í ÍR-liðinu í fyrri umferðinni þar sem hann var með  18,4 stig og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Oddur skoraði 22,5 og gaf 4,5 stoðsendingar að meðaltali í fjórum sigurleikjum Breiðholtsliðsins.

„Við komumst að samkomulagi við þá ÍR-inga um að Oddur kæmi og spilaði með Njarðvík í vetur. Það vita svo sem allir hvað Oddur kemur með til borðsins. Flottur körfuboltamaður sem styrkir enn frekar okkar hóp og í raun þá stöðu sem hefur plagað okkur að vissu leyti  í vetur," sagði Teitur Örlygsson í viðtali við karfan.is.

„Nú getum við spilað mönnum eins og Loga og Hauk Helga betur í sínar stöður og getum leyft okkur að hvíla þá meira en við höfum viljað.  Leit af erlendum leikmanni stendur enn yfir og við viljum vanda okkur þar. " sagði Teitur ennfremur við Skúla Sigurðsson á karfan.is

Njarðvík verður því með þrjá af stigahæstu íslensku leikmönnum deildarinnar í sínu liði eftir áramót en Haukur Helgi Pálsson var að skora 19,8 stig í leik í fyrri umferðinni og Logi Gunnarsson skoraði 15,9 stig að meðaltali.

Nú verður fróðlegt að sjá hvernig skotin skiptast á milli þeirra félaganna en Oddur er í 10. sæti yfir flest skot reynd, eða 16,6 að meðaltali í leik. Logi er þar í 13. sæti (15,3) og Haukur Helgi í því 19. (12,8).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×