Innlent

Segir leiðinlegt að skemmdarverk hafi verið unnin á húsnæði Útlendingastofnunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Orðið "fasistar" var málað á húsnæði Útlendingastofnunar í gær.
Orðið "fasistar" var málað á húsnæði Útlendingastofnunar í gær. vísir/gva
Skemmdarverk sem unnin voru á húsnæði Útlendingastofnunar í gærkvöldi voru tilkynnt til lögreglu sem kom á staðinn í morgun, skoðaði vettvang og gerði skýrslu, en eins og greint var frá í gær var krotað á veggi stofnunarinnar orðið „Fasistar.“

Ekki var búið að þrífa krotið af í morgun þegar ljósmyndara Vísis bar að garði en samkvæmt Kristínu Maríu Gunnarsdóttur, staðgengli forstjóra Útlendingastofnunar, var það gert eftir að lögregla hafði komið og skoðað vettvanginn. Aðspurð hvernig starfsfólki hafi orðið við í morgun þegar það mætti til vinnu, segir hún:

 

„Þetta er náttúrulega voða leiðinlegt, þú getur rétt ímyndað þér. Það er náttúrulega bara fólk að vinna hérna sem auðvitað líður illa yfir þessu. Hér eru líka bara allir að reyna að gera sitt besta þannig að þetta er ósköp leiðinlegt verð ég segja.“

Þá nefnir Kristín fjölmiðlaumfjöllun seinustu daga um málefni flóttamanna og hælisleitenda og segir að umfjöllun um Útlendingastofnun hafi verið óvægin. Það spili þó inn í að stofnunin megi ekki tjá sig um einstök mál.

„Umfjöllunin verður því oft kannski svolítið einhliða. Það er samt ágætt að það sé fjallað um þessi mál í fjölmiðlum og ég fagna því en við munum væntanlega líka bregðast við og fara að fyrra bragði að fjalla um mál. Koma til dæmis upplýsingum á framfæri varðandi það þegar fólki er veitt hæli og vera meira áberandi að því leyti. Þetta er kannski eitthvað ákall á það að veita meiri upplýsingar.“

Málað var með rauðri málningu á glugga stofnunarinnar.vísir/gva

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×