Viðskipti erlent

Stærsti lyfjafyrirtækjasamruni sögunnar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Pfizer hefur keypt Allergan fyrir 21.000 milljarða króna.
Pfizer hefur keypt Allergan fyrir 21.000 milljarða króna. Vísir/Getty
Í dag tilkynntu bandaríski lyfjaframleiðandinn Pfizer að samningar hefðu náðst um yfirtöku fyrirtækisins á Botox-framleiðandanum Allergan. Samningurinn er metinn á 160 milljarða bandaríkjadala, 21.000 milljarða íslenskra króna. Því er um að ræða stærsta lyfjafyrirtækjasamruna sögunnar.

Um er að ræða sameiningu Pfizer og frumlyfjahluta Allergan og hefur samkomulag þetta ekki áhrif á fyrirhuguð kaup Teva á samheitalyfjahluta fyrirtækisins sem tilkynnt var um í júlí á þessu ári. Samheitalyfjahluti fyrirtækisins starfar að mestu undir nafni Actavis víða um heim, þar á meðal á Íslandi, en hér á landi er fyrst og fremst starfsemi á sviði samheitalyfja, segir í tilkynningu frá Allergan.

Sérfræðingar telja að með samningnum muni Pfizer flytja höfuðstöðvar sínar til Dublin á Írlandi og þannig forðast háa fyrirtækjaskatta Bandaríkjanna.

Hluthafar í Allergan munu fá 11,3 hluti í nýja fyrirtækinu fyrir hvern hlut sinn í Allergan.

Á síðasta ári reyndi Pfizer að kaupa breska lyfjafyrirtækið AstraZeneca, en yfirtökutilboðinu var hafnað.

Ian Read, forstjóri Pfizer, mun verða forstjóri og stjórnarformaður nýju samstæðunnar, segir í frétt BBC um málið. Brent Saunders, forstjóri Allergan, mun verða framkvæmdastjóri rekstrarsviðs samstæðunnar.

Yfirtakan er ein af fjölmörgum þar sem bandarísk fyrirtæki kaupa evrópsk fyrirtæki og flytja höfuðstöðvar sínar til að forðast háa fyrirtækjaskatta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×