Viðskipti erlent

Framleiðendur Candy Crush keyptir fyrir 750 milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Tekjur Candy Crush voru 1,33 milljarður dala í fyrra, um 170 milljarðar króna, og er hann einn vinsælasti snjalltækjaleikur heims.
Tekjur Candy Crush voru 1,33 milljarður dala í fyrra, um 170 milljarðar króna, og er hann einn vinsælasti snjalltækjaleikur heims. Vísir/EPA
Leikjaútgefandinn Activision, sem er líklega þekktastur fyrir Call of Duty leikina, hefur varið gífurlegum fjármunum í að kaupa leikjaframleiðandann King, sem framleiðir Candy Crush Saga og aðra leiki. Um hálfur milljarður manna spilar leikinn að einhverju leyti í mánuði hverjum.

Activision keypti King fyrir 5,9 milljarða dala, eða um 750 milljarða króna. Kaupin eiga eftir að hljóta náð yfirvalda í Írlandi þar sem King er rekið, en reiknað er með að allt verði klappað og klárt næsta vor.

Tekjur Candy Crush voru 1,33 milljarður dala í fyrra, um 170 milljarðar króna, og er hann einn vinsælasti snjalltækjaleikur heimsins. King átti þrjá af tíu tekjuhæstum leikjum hjá Apple og Google og leikir fyrirtækisins voru spilaðir 1,5 milljarðs sinnum á degi hverjum.

Samkvæmt tilkynningu frá Activision mun starfsemi King halda eðlilega áfram, sem sjálfstæð eining undir Activision.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×