Innlent

Fleiri hælisleitendur frá Albaníu en Sýrlandi

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að mál albönsku fjölskyldunnar þurfi að fá sína meðferð í kerfinu. Málefni einstaklinga í hópi innflytjenda eigi ekki að vera á borði stjórnmálamanna. Það hafi verið markmiðið með því að setja á stofn kærunefnd.

Kristínu Völundardóttur forstjóra Útlendingastofnunar voru í dag afhentar tíu þúsund undirskriftir fólks sem vill að albanska fjölskyldan sem fjallað hefur verið um í fréttum fái að setjast hér að. Fólkið þykir ekki uppfylla skilyrði fyrir pólitísku hæli. Úrskurðurinn hefur verið kærður til sérstakrar úrskurðarnefndar sem á eftir að fjalla um málið. Illugi Jökulsson rithöfundur safnaði undirskriftunum á Facebook og segir að ef svo margir gátu skrifað undir á þremur dögum, hljóti þetta að vera mistök.

Uppfylla ekki skilyrði um pólitískt hæli

Forstjóri Útlendingastofnunar hefur sagt að fjölskyldan uppfylli ekki skilyrði um hæli og ekki megi veita undanþágur sem hægt sé að vísa til. Þá gætum við staðið frammi fyrir því að öll albanska þjóðin settist hér að. En skýtur það ekki skökku við að halda því annars vegar fram að Albanía sé friðsælt lýðræðisríki sem hlúi að mannréttindum þegnanna og og hins vegar að ef það sé opnuð glufa einhvers staðar komi öll albanska þjóðin og vilji setjast að?

Ólöf Nordal svarar því til að Albanir uppfylli ekki skilyrði fyrir hæli samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru. Það sé ekki hægt að tala um hælisleitendur frá Sýrlandi og Albaníu í sama orði. Hún segir að það komi mikið á óvart að í miðju umrótinu séu enn fleiri hælisleitendur frá Albaníu en stríðshrjáðum svæðum.


Tengdar fréttir

Nær útilokað að Telati- fjölskyldan fái hér hæli

Erfitt getur verið fyrir fólk frá Albaníu að fá dvalarleyfi vegna atvinnu hér á landi. Lögfræðingur með sérhæfingu í málefnum útlendinga telur dvalarleyfi af mannúðarástæðum bestu lausnina fyrir Telati-fjölskylduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×