Erlent

Segja flóttamennina ógna Evrópu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Victor Orban hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína.
Victor Orban hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína. vísir/epa
Forsætisráðherra Ungverjalands segir landamærum Evrópu ógnað sökum mikils flóttamannastraums um álfuna. Hann segir að allar þjóðir þurfi að standa sameinuð gegn vandanum og hefur veitt ungverska hernum aukið vald gegn flóttafólki sem kemur ólöglega til landsins.

„Þeir eru ekki einungis að banka á dyrnar, heldur eru þeir að brjóta þær niður,“ sagði Viktor Orban forsætisráðherra. „Þeir eru að yfirtaka okkur.“

Nýju lögin, sem tóku gildi í dag, veita ungverska hernum heimild til að nota gúmmíkúlur, táragas og netbyssur á flóttamenn við landamæri ríkisins. Þá fær lögregla jafnframt heimild til þess að leita á heimilum fólks, leiki grunur á að það sé að hýsa flóttafólk.

Fyrr í þessum mánuði tóku í gildi hert lög sem veittu lögreglu meðal annars heimild til að handtaka þá sem koma ólöglega til landsins. Þá hefur verið reist fjögurra metra há girðing meðfram Serbíu í þeim tilgangi að halda flóttafólki frá.

Orban hvatti aðrar þjóðir til að sýna samstöðu í þessu máli, en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína. Innanríkis- og dómsmálaráðherrar munu koma saman í Brussel á morgun þar sem reynt verður að komast að niðurstöðu um hversu marga flóttamenn hvert ríki á að taka á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×