Innlent

Aukin hætta á skriðuföllum vegna mikilla vatnavaxta

Gissur Sigurðsson skrifar
Búist er við vatnavöxtum í ám á vestanverðu landinu og aukin hætta er á skriðuföllum vegna mikillar úrkomu næstu sólarhringa.

Úrkoman sem féll á Ölkelduhálsi á Hellisheiði síðastliðinn sólarhring var slík, að hún hefði að líkindum valdið flóðum á láglendi og yfirfyllt niðurföll í þéttbýli. Aðal úrkomusvæðin verða svo einkum austur með suðurströndinni næstu tvo sólarhringa.

Það hefur líka ringt óhemju mikið í Bláfjöllum og í Grundarfirði, en rigningin á Ölkelduhálsi á þó metið að sögn  Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings.

„Það rigndi mest núna á Ölkelduhálsi en úrkoman þar var 146 millimetrar síðasta sólarhringinn.“

Aðspurður segir Þorsteinn að þetta skapi ekki hættu á skriðuföllum.

„Ekki á þessum slóðum, nei. Þarna er mikið af gljúpu hrauni sem sýgur vatnið í sig.“

Hvað myndi það þýða ef að þetta væri í byggð? Myndu niðurföll fyllast eða hvað?

„Já, það myndi væntanlega þýða það að niðurföll myndu fyllast og gætu orðið flóð á lægstu punktunum í bænum ef þetta myndi fara hérna yfir byggð. Niðurföllin myndu varla hafa undan.“

En hvað er framundan næsta sólarhring?

„Rigningin heldur áfram en síðan færist smám saman regnsvæðið austar, austur í Mýrdal og undir Vatnajökul næstu tvo sólarhringa.“

Sjá nánar á veðurvef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×