Íslenski boltinn

Guðrún: Maður fær bara gæsahúð

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar
Guðrún Arnardóttir, miðvörður Breiðabliks.
Guðrún Arnardóttir, miðvörður Breiðabliks. Vísir/Stefán
Þrátt fyrir sigur á Stjörnunni í kvöld og sjö stiga forskot á toppi Pepsi-deildar kvenna segir Guðrún Arnardóttir, miðvörður Breiðabliks, ekki tímabært að stimpla liðið sem Íslandsmeistara.

"Nei, alls ekki. Það eru fjórir leikir eftir og við verðum að klára þá almennilega. Þetta var eitt skref í átt að titlinum en það eru enn fjögur eftir."

Hún viðurkennir þó að Blikar hafi tekið stórt skref í átt að titlinum með sigrinum í kvöld.

"Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur og kemur okkur í ágæta stöðu. En þetta er ekki búið," sagði Guðrún sem hefur spilað eins og engill í hjarta Blikavarnarinnar í sumar en liðið hélt hreinu í 11. leiknum í röð í kvöld.

Guðrún segist ekki hafa verið neitt sérstaklega hrædd um að Stjarnan myndi skora í kvöld.

"Nei, ef ég á að vera alveg hreinskilin fannst mér það ekki. Fengu þær eitthvað opið færi? Ég held ekki," sagði Guðrún.

"Við vinnum ótrúlega vel saman, allt liðið. Vörnin byrjar fremst á vellinum og það er allt liðið sem skilar því að við höldum hreinu."

Fanndís Friðriksdóttir skoraði eina mark leiksins á 49. mínútu með frábæru skoti. Guðrún segir það hafa verið sætt að sjá boltann í netinu.

"Fanndís er frábær leikmaður og við fengum fleiri tækifæri til að skora," sagði Guðrún sem hrósaði einnig stuðningsmönnum Breiðabliks sem létu vel í sér heyra í kvöld.

"Ertu að grínast? Þetta er æðislegt. Þessir strákar eru æðislegir og það er þvílíkur munur að hafa þá. Maður fær bara gæsahúð að hlusta á þá og "peppast" þvílíkt upp," sagði Guðrún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×