Innlent

Úrhelli á Siglufirði: „Holræsakerfi bæjarins er fullt af drullu“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikið úrhelli var á Siglufirði í gær og finnur holræsakerfi bæjarins fyrir því.
Mikið úrhelli var á Siglufirði í gær og finnur holræsakerfi bæjarins fyrir því. vísir/andri freyr sveinsson
Hreinsunarstarf er að hefjast á Siglufirði en gríðarlegt úrhelli var þar í gær með tilheyrandi aurskriðum og vatnsflaumi.

Að sögn Ámunda Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra í Fjallabyggð, hefur nú hætt að rigna en ljóst er að mikið tjón hefur orðið í bænum. Telur að hann að það hafi orðið tjón í allt að 30 húsum í bænum þar sem flætt hefur inn.

Ámundi segir bæjarbúa taka ástandinu með sinni stóískri þó eflaust séu einhverjir í áfalli og þurfi á andlegri og fjárhagslegri aðstoð að halda. Sumar íbúðir í bænum eru óíbúðahæfar auk þess sem vegakerfið hafi látið verulega á sjá.

„Holræsakerfið bæjarins er fullt af drullu og svo eru Fossegur og Hólavegur ennþá lokaðir. Hólavegurinn er alveg í sundur og ekki hægt að keyra yfir Fossveginn. Það er ómögulegt að segja hvenær búið verður að gera við vegina og svo er auðvitað stóra málið vegurinn út að Strákagöngum og vegirnir þar í kring, þar féll mikill fjöldi aurskriða,“ segir Ámundi.

Engar skriður hafa fallið í bænum í dag og segir Ámundi að ástandið í bænum sé gerólíkt í dag miðað við það sem var í gær. Þá eigi að kólna í dag samkvæmt spánni og létta til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×