Íslenski boltinn

Hvernig getur Fanndís ennþá "bara" verið með 14 mörk | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir.
Fanndís Friðriksdóttir. Vísir/Ernir
Breiðablik er áfram með fjögurra marka forskot á toppi Pepsi-deildar kvenna en markadrottningin Fanndís Friðriksdóttir náði þó ekki að auka við forskot sitt á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Breiðablik vann 3-0 sigur á Fylki á Kópavogsvelli í gær og fékk Fanndís Friðriksdóttir fjölda færa til þess að bæta við þau fjórtán mörk sem hún var búin að skora í tólf fyrstu umferðum Pepsi-deildarinnar.

Fanndís Friðriksdóttir hefur því áfram tveggja marka forskot á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem er farin út í nám til Bandaríkjanna og spilar ekki fleiri leiki í sumar.

Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni og Sandra María Jessen úr Þór/KA skoruðu báðar tvö mörk í þessari umferð og eru núna þremur mörkum á eftir Fanndísi.

Fanndís hefði farið langt með að tryggja sér gullskóinn ef að hún hefði nýtt allra bestu færin í leiknum í gær en hún klúðraði meðal annars vítaspyrnu í leiknum.

Fanndís hefur nú ekki skorað í þremur leikjum í röð og eftir að hafa horft á öll færin sem fóru forgörðum gegn Fylki þá gætu einhverjir velt því fyrir sér hvort að slokknað væri á heitasta framherja Pepsi-deildarinnar.

Fanndís sofnaði örugglega seint í gærkvöldi en hún hjálpaði til við að landa sigrinum með því að leggja upp þriðja mark Blika og eiga stóran þátt í undirbúningi annars marksins.

Strákarnir á Sporttv klipptu saman myndbrot með öllum færunum sem Fanndís fékk í leiknum á móti Fylki í gær. Myndbandið er aðgengilegt með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×